(Vinkona mín birti þennan texta á Facebook. Mér fannst hann svo ágætur að ég leyfði mér að snara honum yfir á íslensku og birta hér).
Gerðu þér grein fyrir því að lífið er ekki bein lína. Það er ekki tímalína með markmiðum sem þú strikar yfir þegar þetta er ‘komið’.
Það er alveg í góðu að vera ekki búinn að ljúka námi; gifta sig; finna góða vinnu; stofna fjölskyldu; afla tekna og vera kominn í svona eða hinsegin stöðu þegar þú ert komin á einhvern x aldur. Það er í lagi að hafa ekki gert neitt af þessu þegar þú ert á hvaða aldri sem er. Það er líka alveg í lagi að vera búinn að því en þú verður að hafa það alveg á hreinu að þó þú sért ekki gift/ur 25 ára, íbúðareigandi um þrítugt og bara eitthvað sem endar á stjóri um fimmtugt með skuldlausa eign og tvo bíla – þá er heimurinn ekki að fara að dæma þig.
Þú mátt gera hlutina á þínum eigin hraða. Þér leyfist að komast sjálf að því hvað veitir þér innblástur og nærir þig andlega. Þú mátt taka þér tíma til þess.
Fólk bara gleymir þessu.
Við veljum einhverja braut í framhaldsskóla strax eftir grunnskóla og svo er það beint í Háskóla og úr honum í vinnu tengda náminu, bara af því við völdum okkur þetta fag og af því við erum búin að nota fjögur eða fleiri ár af lífinu í þetta nám.
Svo förum við í vinnuna á hverjum morgni af því við teljum okkur trú um að við verðum að framfleyta okkur og eiga nóg. Við tökum næsta skref, og svo næsta og næsta, og alltaf erum við að haka við tékklistann, markmiðin á tímalínunni. Svo vöknum við einn morguninn, þunglynd, stressuð, undir álagi og skiljum ekkert af hverju.
Það er svona sem maður eyðileggur líf sitt.
Þú eyðileggur líf þitt með því að velja rangan maka
Hvað er málið með að flýta sér í samband? Af hverju liggur okkur svona á? Ást sem sprettur af hagkvæmni, af þörfinni til að sofa við hlið einhvers, af þörf fyrir athygli… sú ást er ekki að fara að vekja með þér innblástur eða næra þig til lengri tíma. Leitaðu að sannri ást. Finndu samband sem lætur þig langa til að verða betri maður eða kona. Finndu nánd sem er sjaldgæf og sönn frekar en handhæg og auðveld. Ekki velja einhvern bara af því ‘hann er þarna’.
Margir óttast einhveruna en hún er það síðasta sem maður á að hræðast. Borðaðu ein/n, farðu ein/n í bíó, sofðu ein/n, farðu ein út að ganga, í ferðalag, borðaðu morgunmatinn ein.
Í einverunni munt þú læra á manneskjuna sem þú ert.
Þú kemst að því hvað þú fílar og hvað þú fílar ekki. Þú verður skýrari og skarpari og veist betur úr hverju þú ert gerð og hvað þú þarft. Alls ekki flýta þér í samband.
Bíddu, skoðaðu sjálfa/n þig og svo máttu opna hugann. Ekki fara í samband “af því bara”. Bíddu frekar og veldu vel af því það verður sú fallegasta reynsla sem hjarta þitt hefur upplifað. Þegar þú hittir réttu manneskjuna þá veistu að hún er rétt af því þú þekkir sjálfa/n þig. Þú veist hver þú ert og hvað fær dæluna þína til að ganga í öruggum takti.
Þú eyðileggur líf þitt með því að láta fortíðina stjórna framtíðinni
Allir ganga í gegnum erfiðleika í lífinu. Við förum í ástarsorg, við verðum ringluð; Það koma dagar þar sem okkur finnst við ekki hafa neinn tilgang, dagar þar sem okkur finnst við ómerkileg. Það koma augnablik sem festast í huganum, orð sem límast föst. Þú mátt ekki láta þessi augnablik eða orð skilgreina hver þú ert. Þetta voru bara orð, þetta var bara eitt andartak.
Ef þú lætur neikvæðar upplifanir stjórna því hvernig þú sérð sjálfa/n þig þá muntu alltaf sjá heiminn í gráu og neikvæðu ljósi. Þú munt missa af tækifærum af því þú fékkst ekki þessa stöðuhækkun þarna fyrir fimm árum og sannfærðir þig í leiðinni um að þú værir vitlaus.
Þú munt verða af ást og kærleika af því þú reiknar með að þú sért alveg ómöguleg/ur, – fyrrverandi fór jú frá þér. Af hverju ættirðu þá að trúa nýjum ástarjátningum? Af hverju að treysta núna? Hann/hún brást jú trausti þínu þarna fyrir 10 árum? Þetta verður svokölluð self-fulfilling prophecy. Þín eigin ógæfuspá mun rætast því það verður sem þú væntir.
Þú verður að leyfa sjálfri eða sjálfum þér að halda áfram með lífið, þrátt fyrir það sem þú upplifðir áður, það sem var sagt eða það sem gerðist. Annars muntu alltaf horfa til framtíðarinnar í gegnum neikvæða linsu. Þú þarft að henda þessari linsu og fá þér nýja og um leið leyfa nýrri jákvæðri og bjartri orku að streyma til þín.
Þú eyðileggur líf þitt með því að bera þig saman við aðra
Það hversu margir eru að elta þig á Instagram segir ekkert um hvernig manneskja þú ert. Það gefur þér ekkert meira gildi og dregur ekki úr því. Peningarnir sem þú átt inni á reikningnum hjá þér hafa engin áhrif á hversu mikla samkennd þú hefur í brjóstinu, hversu gáfuð eða gáfaður þú ert eða hvar á hamingjuskalanum þú stendur.
Fólk sem á tvisvar sinnum meira en þú fagnar því ekki að vera tvöfalt hamingjusamara. Það er ekki tvisvar sinnum meira gaman hjá þeim. Við töpum okkur í því hvað einhverjir vinir eru að ‘læka’, hverja makinn er að ‘elta’ og þegar öllu er á botninn hvolft þá skemmir þetta ekki bara líf okkar heldur líka okkur sjálf.
Þetta skapar tilgangslausa og innantóma þörf til að öðlast mikilvægi og mjög oft verður það svo að aðrir verða fyrir því með neikvæðum hætti.
Þú eyðileggur líf þitt með því að vera kaldlynd/ur
Við erum öll eitthvað svo feimin við að segja of mikið, að finna of miklar tilfinningar, að segja fólki hvaða máli það skiptir okkur. Að tjá annari manneskju að manni þyki vænt um hana og að hún skipti mann máli mun sannarlega gera okkur aðeins meira berskjölduð, það er rétt, en á hinn bóginn er það ekkert til að skammast sín fyrir.
Það er eitthvað svo óskaplega fallegt við þessar litlu stundir þegar maður fellir varnirnar og segir þeim sem manni þykir vænt um hvað manni býr í brjósti. Segðu stelpunni að hún veki hjá þér innblástur og að þér þyki hún frábær og klár.
Segðu mömmu þinni að þér þyki vænt um hana, beint fyrir framan vini þína. Tjáðu þig, opnaðu þig, ekki herða þig upp og bæla góðar tilfinningar inni.
Láttu fólk vita að þér þyki vænt um það. Sýndu því að þú elskir það og að þú kunnir að meta það. Í því felst mikið hugrekki.
Þú eyðileggur líf þitt með því að umbera það
Þegar öllu er á botninn hvolft ættir þú að vera að farast úr spenningi bara yfir því einu að vera til. Að hafa yfirleitt fæðst. Þegar þú sættir þig við annað en þú virkilega þráir þá ertu að drepa möguleikana sem brjótast um innra með þér og með því ertu bæði að svíkja sjálfa/n þig og heiminn í kringum þig.
Okkar næsti Jóhannes Kjarval gæti þess vegna setið, akkúrat á þessari stundu, með Macbook fyrir framan sig að skrifa út reikninga fyrir bréfaklemmum eða hanna kynningarbæklinga fyrir klósettpappírsframleiðanda, af því það borgar húsnæðislánin, eða af því það er „þægilegt“, eða af því hann umber þetta ástand. Ekki láta þetta koma fyrir þig. Ekki eyðileggja líf þitt með þessum hætti.
Lífið og vinnan, lífið og ástin. Þetta eru ekki aðskilin fyrirbæri heldur eitt og hið sama.
Við þurfum að berjast, þora og leggja á okkur til að upplifa magnað og æðisgengið líf og þá munum við öðlast sanna hamingju!
[Þýtt og endursagt úr Thought catalogue/ Bianca Sparacino]
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.