Í gærkvöldi naut ég þess heiðurs að vera boðið á opnunaratriði Listahátíðar í Reykjavík þar sem verkið Svartar Fjaðrir var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu.
Verkinu er stýrt af dansahöfundinum Sigríði Soffíu Níelsdóttur en verkið byggir hún á ljóðum Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi sem öll eru að finna í samnefndri bók, Svartar fjaðrir.
Bókin kom út þegar skáldið var 24 ára og í henni er að finna ótal falleg ljóð sem sum hafa hreiðrað um sig í þjóðarsálinni.
Fyrir mér er nútímadans annaðhvort svart eða hvítt. Mig langar ýmist að hengja mig eftir sýninguna og drekka Ajax, – eða ég er bara endurfædd í birtu, gleði og fögnuð, BORN AGAIN! Svartar fjaðrir er algjörlega svona born again sýning. Hún er svo frábær að mig langar að senda alla og ömmur þeirra, langömmur, frænkur, frændur og pabba á hana!
Í mínum huga er list ýmist flókin og óaðgengileg eða aðgengileg, skýr og í góðu jafnvægi.
Fyrir mér var þessi sýning þannig. Hún er einlæg, kraftmikil, kynþokkafull og sterk og þarna spila saman orð, dans, leikur, ljós og tónlist svo að útkoman verður algjör veisla.
Leikarar og dansarar skiptast stundum á hlutverkum, leikararnir dansa og dansararnir fara með texta. Stundum hjálpast þau að við að gera bæði.
Búningarnir (sem og annað) eru stórkostlega vel heppnaðir og spila risastóran þátt í sýningunni. Það er Hildur Yeoman sem hannaði búningana en strax í upphafsatriði verksins blasir við að það er eitthvað frábært í vændum.
Verkið hefst á ljóðinu KOMDU:
Svört vera (Hannes Þór Egilsson) hefur komið sér fyrir á miðju sviðinu og krýpur með andlitið niður. Hún er í búning/flík sem mér virtist meðal annars gerð úr VHS teipi. Veran sveiflast, hnígur og rís í hvítum reyk, rúllar sér upp, hniprar sig saman, veltir sér um gólfið og skiptir um form þar til hún beygir sig undir og kyssir dansara sem minnir á fyrirsætu úr haute couture tískusýningu; Með hátt tagl á höfði, í fjaðurjakka, háum hælaskóm og með svartan augnfarða. Saman tengjast verurnar svo í kyngimögnuðu kelerí sem vindur upp á sig og við bætast tvær fyrirsætur til viðbótar.
Svona hefst þetta ferðalag um hugarheima og líf Davíðs Stefánssonar. Svo er dansað og leikið við fleiri ljóð og minni úr lífi þessa færa orðsnillings. Meðal annars flytur Oddur Júlíusson texta upp úr bréfi sem Davíð skrifaði til Björns O. Björnssonar en þar ver hann ástríður sínar og lifnaðarhætti og segir meðal annars þetta í algjörlega magnaðri senu:
„Það þarf mannkærleika til að lækna andlega bresti; það þarf nærgætni og stillingu til að segja mönnum til syndanna svo, að það hafi nokkur áhrif… Menn smána þann sem drekkur sig um of ölvaðan… en hversu miklu fremur eru þeir ekki smánar verðir, sem ræna mannorði annara og eru sníkjuplöntur á annara syndum.”
Önnur sena sem mér þótti alveg stórbrotin var flutningur Ingvars E. Sigurðssonar á ljóðinu Moldin angar. Það gerði hann með afbrigðum vel og hugmyndin, að gera handa og höfuð hreyfingar í kringum stuðla og höfuðstafi í ljóði… já þvílík hugmynd!
Heilt yfir er hver sena eins og heilt og fullmótað listaverk. Þannig eru jú ljóðin líka. Tengingin eru “litirnir” svart og hvítt, fuglarnir og svörtu fjaðrirnar en hver sena flæðir inn í þá næstu svo að heildarmyndin er skýr og í góðu jafnvægi. Skiljanleg, heillandi og brakandi fersk upplifun, knúin áfram í samspili frábærra listamanna og kvenna.
Til að þetta verði nú ekki allt of langt hjá mér (af því ég gæti mögulega skrifað óperu, kórverk, ritbálk, leikrit og skáldsögu um hrifningu mína á þessu verki) þá vil ég bara hvetja þig til að drífa þig á Svartar Fjaðrir í Þjóðleikhúsinu.
Hvort sem þú elskar tísku, tónlist, orðlist, dans, hönnun eða allt í senn þá áttu eftir að fá fullt fyrir peninginn og meira til. Þessari upplifun ætti að minnsta kosti enginn unnandi sviðslista að missa af!
Að lokum óska ég þess að samstarf milli ríkisleikhússins og utanaðkomandi listamanna muni færast í aukana með þessum hætti því við eigum svo mikið af fáránlega hæfileikaríku listafólki! Aðkoma þeirra er einfaldlega eins og ferskt og framandi hráefni í eldhús sem við elskum nú þegar.
Það verða bara fjórar sýningar til viðbótar á Svörtum fjöðrum – Frekari upplýsingar um miðakaupin er að finna HÉR.
[usr 5]
Þáttakendur í sýningunni eru:
Leikarar: Ásgeir Helgi Magnússon, Atli Rafn Sigurðarson, Dóra Jóhannsdóttir, Erna Ómarsdóttir, Hannes Egilsson, Ingvar E. Sigurðsson, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Oddur Júlíusson, Saga Garðarsdóttir, Sigríður Soffía Níelsdóttir
Tónlist: Jónas Sen, Valdimar Jóhannsson
Leikmynd: Daníel Björnsson, Helgi Már Kristinsson
Búningar: Hildur Yeoman
Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson
Danshöfundar: Sigríður Soffía Níelsdóttir
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.