Þrátt fyrir að vera nokkuð víðförul, hafa ferðast um helstu stórborgir Evrópu og búið í nokkrum þeirra þá var ég að koma til Parísar í fyrsta skipti í vikunni.
Ég taldi mig undirbúa mig nokkuð vel fyrir ferðina, skellti nokkrum designerkjólum og háum hælum í ferðatösku og auðvitað rauðum Chanel varalit til að ég myndi passa inn í menninguna með öllum flottu frönsku tískudrósunum. En svo kom VEÐRIÐ, já VEÐRIÐ, því í París hefur ekki verið eins slæmt veður í 25 ár! Og gat ég notað fallegu kjólana og hælana? Svo sannarlega EKKI.
Örvæntingarfull arkaði ég um Champs Elysees í slabbinu og snjókomunni í leit að jólagjöfum, svo ísköld og blaut í fæturna að ég tók á það ráð að klæða mig í peysu sem ég ætlaði að gefa manninum mínum og sokka handa syninum með plastpoka utan um ofan í gagnlausum gellustígvélum. Þetta var á fyrsta degi.
Á öðrum degi versnaði veðrið og samgöngur röskuðust allverulega, ómögulegt var að fá leigubíl og lestirnar voru stopp svo ég arkaði aftur nokkra kílómetra leið í snjókomu með blauta fætur og meikuppið lekandi niður kinnarnar. Ekki alveg það sem ég hafði í huga þegar ég sá fyrir mér Parísarferðina!
Þegar ég kom að Marc Jacobs búðinni datt ég hinsvegar í lukkupottinn með furðulegum hætti. Í þeirri búð eru nefnilega ósköp hversdagslegar flíkur seldar á uppsprengdu verði en „í tilefni veðursins“ voru skærlit vaðstígvél seld á 26 evrur!!
Ó Gvuð, ég hef ekki verið jafn ánægð með vaðstígvél síðan öðrum degi á Hróarskeldu 2004! Ég rifjaði einmitt upp hina gullnu reglu frá þeirri góðu hátíð, vaðstígvél og gafferteip geta bjargað þér á öllum ferðalögum -meira að segja í París.
Sæl hélt ég áfram verslunarleiðangri mínum og lét eins og ég sæji ekki augngotur starfsstúlknanna í fínu verslununum þegar þær sáu mig detta inn, niðursnjóaða í skærbláum vaðstígvélunum, með meikuppið lekandi og Sólheimabros á andlitinu.
Þrátt fyrir þessa sérstöku reynslu finnst mér París yndisleg borg. Ég er glöð að hafa séð hana í sínum fínasta jólabúning með ekta jólasnjó. Að sjá Champs Elyseés baðaða jólaljósum, með glögg á hverju horni og Sigurbogann upplýstann við enda götunnar kom mér í rétta jólaskapið. Ég fann gistingu í íbúð í gegnum Parísardömuna, góð íbúð í skemmtilegu hverfi, og svo skyldi ég stígvélin góðu eftir fyrir neyðartilvik komandi gesta…
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.