Erik Johansson er sænskur verkfræðingur sem býr í Berlín. Hans aðalstarf undanfarin ár er hinsvegar ekki verkfræði heldur skapar hann tölvulistaverk sem þykja meðal þeirra bestu í dag.
Hann er því eftirsóttur um allan heim og mætir t.d. á allskonar Adobe ráðstefnur og sýnir hvað hægt er að gera ásamt því að búa til auglýsingar og fleira.
Það sem hann gerir best og hefur komið honum á framfæri eru hinsvegar hans persónulegu listaverk sem eru algjörlega frábær.
Markmið Johansson með verkum sínum er að búa til mynd sem er á sama tíma mjög raunveruleg og gjörsamlega óhugsandi. Þar sem margir búa til furðulegar og skrítnar myndir þá reynir hann að gera myndir sínar eins notalegar eða geðþekkar og hann getur. Hann reynir að nota kímnigáfuna og í myndum hans er sjaldgæft að finnist fræðsluskilaboð af einhverju tagi. Hann vill að fólk túlki sjálft það sem það sér í myndunum og fær innblástur frá listamönnum eins og M.C. Escher, Salvador Dali og Rene Magritte.
Erik er algjörlega sjálflærður í Photoshop en hann hefur teiknað frá því hann var smábarn og hann skissar upp öll sín verk áður en hann fer af stað.
Það sem gerir hann frábrugðinn öðrum sem búa til tölvulistaverk er að hann tekur allar sínar ljósmyndir sjálfur, kaupir engar af ljósmyndabönkum sem eru á netinu.
Ástæðuna segir hann vera þá að ef hann kaupi myndir eftir aðra þá er þetta ekki hans listaverk. Einnig að þá ráði hann ekki hvernig myndin lítur út, t.d. með tilliti til ljóss og skugga.
Hann leggur því oft mikið á sig til að ná réttu myndinni, fer dag eftir dag á ákveðið svæði á ákveðnum tíma til að ná réttu ljósbrigði og réttri áferð.
Hér eru dæmi um nokkrar myndir Erik Johansson og dæmi nú hver fyrir sig. Hér er líka video sem sýnir hvernig myndin Drifting away sem er ein af myndunum í myndasafninu er búin til.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=DHVroXo_K50[/youtube]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.