Hefur þú tekið eftir öllum aulunum í umferðinni?
Ég sé þá út um allt! Fólk sem keyrir langt undir hámarkshraða á vinstri akrein, hreinlega lallar um í sínum eigin heimi og pælir ekkert í hinum í kringum sig. Svo er það liðið sem æðir út af aðreinum án þess að líta til hægri eða vinstri, keyrir bara útá og finnst sjálfsagt að allir aðrir víki fyrir sér.
Jeppafólkið er líka algjörlega spes, það er eins og því finnist “litlu” bílarnir ekki vera bílar, heldur eitthvað drasl sem er að þvælast fyrir þeim.
Keyra um eins og kóngar og æða á milli akreina eins og enginn sé nú morgundagurinn. Svo ég tali nú ekki um gömlu karlana með hattana… úfff ég hitna að innan af pirringi þegar ég lendi fyrir aftan einn gamlan. Sjónin orðin slæm, heyrnin búin og þeir bara úti að aka. Lenti fyrir aftan einn um daginn sem stoppaði á hverju einasta græna ljósi en ók svo yfir þegar það var komið rautt ljós. Hvað er það?!
Þegar ég sé þessa ökumenn þá á ég það til að segja mina skoðun á þeim og það hressilega. Svo hressilega að ég er löngu hætt að taka eftir því að ég tuði og tauti á meðan ég keyri bílinn og öskra reglulega Ertu galinn mannfýlan þín?! “PASSAÐU ÞIG” – “ HEY WOW ÞÚ ÞARNA… HVAÐ ERTU AÐ GERA?!” – “LÆRÐU AÐ KEYRA HÁLFVITINN ÞINN!” “JÉÉÉSUSSSSS! Dreymdi þig að þú hafir fengið ökuskirteini?!” Bensíngjöfin er hægra megin!!
ÍTALÍA?
Kannski byrjaði þetta allt hjá mér þegar ég var við nám á Ítalíu. Þar nota allir bensíngjöfina í bílnum sínum og ef einhver er fyrir þá er flautað, öskrað út um gluggann og hnefar sýndir! Það eru sko viðbrögð í lagi! Enda eldheitt fólk upp til hópa. Þetta virðist vera leið hjá þeim til að sleppa öllum pirring út á leiðinni heim úr vinnunni og koma svo salírólegir heim. Eftir hálft ár í svona umferð var maður ósjálfrátt farin að haga sér nákvæmlega eins. Blóta á fínni ítölsku “Va fangula bastardo” og steyta hnefa í allar áttir. Frábær útrás alveg…
En svo var það núna um daginn að ég sótti litla guttann minn á leikskólann sem er nú varla frásögufærandi nema það er svínað fyrir okkur á einu hringtorginu á leiðinni heim. Ég var nú ekki lengi að skella mér á flautuna en áður en ég náði að segja eitthvað heyrðist í litlu röddinni fyrir aftan mig “mamma…kann þessi auli ekki að keyra?!”
Blessað barnið
Usss..ég sökk í framsætinu. Sá stutti greinilega tekið vel eftir og farinn að læra. Ég ákvað þarna á staðnum að ég yrði að fara að róa mig í umferðinni, kenna barninu mínu að maður þarf kannski ekki að æsa sig svona og kalla fólk hinum ýmsum illum nöfnum þó það sé fyrir öllu og öllum út í umferðinni. Enda ekkert svakalega góð fyrirmynd fyrir son minn.
Svo nú hækka ég bara í tónlistinni og syng ljúfa líf ljúfa líf… meðan allir þvælast hver fyrir öðrum á þjóðvegum landsins og brosi vingjarnlega til allra gömlu kallanna með hattana…þrátt fyrir að þeir sjái það auðvitað ekki neitt.
En svo er líka alltaf möguleiki að bíta á jaxlinn, gnísta tönnum og blóta hressilega í hljóði!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.