Þessa grein skrifaði ég fyrir tveimur árum fyrir dagblað en birti hér á pjattinu lesendum til gagns og gamans. Þar sem hún er frekar löng mun ég birta hana í tveimur hlutum. Fyrri hluta hér og næsta eftir viku.
Á síðustu 100 árum hefur mataræði íslendinga breyst verulega. Fyrir einni öld bjuggu íslenskar fjölskyldur við fábreytt fæðuval sem oft var jafnvel af skornum skammti en eftir því sem fram liðu stundir, fjölgaði valkostunum og vandamálin í dag snúast sjaldnast um hvort eitthvað sé til að borða heldur hvað skuli borða og hvernig.
Á undanförnum árum hefur áhugi almennings á heilsusamlegu mataræði færst mjög í aukana og ýmsir skólar og tískustraumar eru í þessum geira. Sumir halda því fram að lífræn fæða sé nauðsynleg til að hollustan sé marktæk og aðrir aðhyllast svokallað hráfæði og borða ekkert sem er hitað yfir 47 gráður. Einhverjir neita sér um allt sem kemur úr dýraríkinu og enn aðrir vilja næstum engin kolvetni og skrifa offituvanda heimsins á þau.
Þá er talað um annarsvegar basískt og hinsvegar súrt mataræði og mataræðinu er stýrt til að vinna bug á candida sveppnum sem getur verið erfiður kvilli.
Orðið “detox” var á hvers manns vörum á tímabili en það heiti er haft yfir einskonar innvortis “hreinsun” sem fólk leggst undir með einum eða öðrum hætti.
En um hvað snýst þetta? Er neysla á hollri og heilnæmri fæðu orðin flókið verkefni sem erfitt er að ráða fram úr nema með aðstoð sérfræðinga? Er nauðsynlegt að hreinsa og afeitra líkamann að innan eða er það orðum ofaukið að tala um eitrun? Verðum við að kaupa sérstakar bækur eða fara á námskeið um hvernig eigi borða hollan mat?
Sitt sýnist hverjum í þessum efnum en Landlæknisembættið mælir ekki með því að fólk leggist í svokallaðar “detox” aðgerðir meðan sumir næringarfræðingar gagnrýna það sem kallað er “næringarefnahyggja” og “sjúkdómavæðing matarins”.
MARKAÐSSETNING Á MATARÆÐI
Meðal þeirra sem harðast hafa lagst gegn því sem hann kallar kukl og þar með töldum detox aðgerðum er Svanur Sigurbjörnsson læknir. Á bloggsíðu sína skrifar hann grein sem sem hann kallar “Hvers vegna EKKI detox”. Þar útsýrir hann meðal annars að líkaminn hafi sjálfur mjög fullkomið afeitrunar- og útskilnaðarkerfi sem þarfnist ekki sérstakar hjálpar við utan þess að misbjóða því ekki með óhollum lífsháttum. Hann segir að lifrin taki við öllu því sem við látum ofan í okkur og því margt sem sé afeitrað þar í svokallaðri fyrstu umferð: “þ.e. ýmis efni sem lifrarfrumurnar líta á sem framandi eru brotin niður í lifrinni áður en þau komast í almennu blóðrásina.“
Spurður að því hver skoðun hans sé á heilsumenningu nútímans segir Svanur bæði markaðssetningu og aðgengi að mat hafa haft sín áhrif á þróun mála.
„Nýjungum í mataræði er demt linnulaust yfir fólk í mikilli markaðssetningu og fólk fær áhyggjur af því að það kunni ekki skil á matnum og sé vanhæft í að borða hollt. Svo verður þetta of ruglingslegt. Stundum er talað um að eitthvað sé voðalega hollt og svo kemur allt í einu grein sem dregur það allt í efa með mis vel rökstuddu máli,“ segir Svanur og bætir við að lífshættirnir hafi breyst á síðustu fimmtíu árum en erfðaefni mannsins ekki.
LAUSNIR Í GRÓÐASKYNI
Svanur segir líka að það sé vert að minna fólk á að hugsa málin til enda og láta ekki glepjast af hverju sem er. „Það er ekki nóg kenna börnum bara líffræði og raungreinar heldur þyrftum við að kenna þeim ákveðna heimspeki líka til að vega hlutina og meta. Það ætti að byrja snemma og láta krakka æfa sig í þessu. Við íslendingar getum verið svo ginkeypt fyrir allskonar nýjungum sem eiga að gera okkur gott. Oftast er þetta vel meinandi og heiðarlegt fólk sem vill gera gagn sem kemur nýjungunum á framfæri en það sem menn átta sig kannski ekki á er að uppruna “lausnanna” er kannski að finna í Bandaríkjunum eða annarsstaðar þar sem töluvert er til af frekar óvönduðu fólki, fólki sem gengur kannski ekki gott eitt til heldur gerir hlutina fyrst og fremst í því skyni að græða peninga,“ segir Svanur.
NOTUM HEILBRIGÐA SKYNSEMI
Sólveig Eiríksdóttir, kennd við veitingastaðina Gló og Grænan Kost er flestum íslendingum vel kunn enda hefur hún farið framarlega í að heilsuvæða landann með hvatningu sem miðar fólki í átt að heilbrigðu mataræði.
„Maður er búin að fara í svo marga hringi í þessu,“ segir Sólveig. „Núna tel ég að aðalmálið sé að fá fólk til að hlusta á boðskap Landlæknis eða Lýðheilsustöðvar; Hálft kíló af grænmeti á dag segja þau eða 75% á disknum af grænmeti og þannig reyni ég að hafa þetta á mínum matseðli,“ segir hún og vísar þar til veitingastaðarins Gló þar sem kjöt er borið fram til jafns við hráfæði.
Ætli heilsuöfgar stafi kannski af því að við lágum lengi í djúpsteikningaroti en núna erum við að ranka duglega við okkur og þá virkar lausnin svolítið öfgakennd líka
Sólveig segir að magir eigi í vandræðum með að fylgja þessum markmiðum um fimm skammta af ávöxtum og grænmeti á dag og að fyrir mörgum sé það áskorun í sjálfu sér að koma svo miklu jurtafæði á matseðilinn dag hvern. „Þetta þýðir að maður þarf að borða salat tvisvar á dag, fullt af góðu salati með matnum og narta í grænmeti og ávexti á milli mála,“ segir hún og bendir um leið á að víðtækar rannsóknir liggi þó að baki þeirri niðurstöðu að svo mikið jurtaát sé vænlegasti kosturinn vilji maður borða hollt.
„Næringarfræðingar sem starfa hjá Landlækni vinna bara í því að reyna að hjálpa okkur að bæta heilsuna og borða rétt og ef maður er í vafa um hvaða ráðum skuli fylgja þá er best að skoða bara leiðbeiningarnar hjá Landlækni,“ segir Sólveig.
EKKI TRÚARBRÖGÐ
Hún tekur undir þegar talað er um að stundum virðist málin of flókin og hvetur fólk til að treysta innsæi sínu þegar tekið er á hollustunni.
„Mataræði er sett upp svolítið eins og trúarbrögð. Það eru alltaf að koma fram nýir sérfræðingar sem segja að réttu aðferðirnar til að viðhalda heilsunni séu svona og hinsegin en fólk áttar sig ekki á því að það þarf bara að byrja strax að borða hollari fæðu. Fá sér epli á eftir og borða svo aðeins hollara í kvöld en í gærkvöldi. Fólk ætlar kannski að taka sig á og rýkur strax í öfga. Heldur síðan að allt sé ónýtt af því það fær sér eina franska kartöflu og þá er “dottið í það”,“ segir hún og rifjar um leið upp hvernig átak í hollustu var einfaldara hér áður fyrr. „Þá fór fólk bara á matstofu Náttúrulækningafélagsins á Klapparstíg ef það vildi taka sig í gegn og svo var gerður hafragrautur úr heilum höfrum. Núna virkar þetta svo óyfirstíganlegt fyrir mörgum. Kúrinn er kannski settur þannig upp að þú þarft að kaupa þrjú kíló af bætiefnum, safapressu og blandara ásamt hinu og þessu. Smátt og smátt verður þetta of flókið og allt í einu hættir flott heilbrigð húsmóðir að treysta innsæi sínu af því hún þekkir ekki þetta svið og þá er hægt að selja henni allt og hún hoppar úr einu í annað en treystir ekki á eigin heilbrigðu skynsemi,“ segir Sólveig.
SKRÍTIÐ OG EKKI SKRÍTIÐ
Sólveig er í hópi þeirra sem hafa verið duglegir að kynna nýjungar í mataræði og margskonar framandi tegundir af mat. Hún hefur til dæmis fjallað mikið um svokallaða ofurfæðu og fremst er hún meðal hérlendra jafningja í matreiðslu svokallaðs hráfæðis.
„Þetta er samt allt bara matur,“ segir Sólveig. „Vandinn er bara sá að þessu er skipt upp í hefðbundið og óhefðbundið, skrítið og ekki skrítið. Sjálf lít ég svo á að hráfæði sé bara matreiðsluaðferð til að koma ofan í sig grænmeti án þess að þurfa að sitja og japla á hráu káli. Hráfæði þarf ekki endilega að vera stefna sem fylgt er út í hið ýtrasta. Þannig er hægt að nota það með öðrum mat. Þú getur til dæmis gert hráfæðipasta og steikt með því lambalundir. Það má alveg. Ég held að það myndi gera okkur öllum rosalega gott að læra að elda fleiri tegundir af mat en við gerum flest og matarmenning, líkt og önnur menning, er í stöðugri þróun. Barnabörnin okkar munu eflaust læra að sjóða linsur, láta spíra og nota goji ber á hafragrautinn sinn. Enn þykja ákveðnir hlutir í mataræði of sérvitrir og fólk fer í vörn en að sjálfsögðu breytist þetta í takt við tímann. Það tekur bara sumt lengri tíma að síast inn í menninguna en annað. Ætli heilsuöfgar stafi kannski af því að við lágum lengi í djúpsteikningaroti en núna erum við að ranka duglega við okkur og þá virkar lausnin svolítið öfgakennd líka.“
HEILBRIGÐ SKYNSEMI Á AÐ RÁÐA FERÐINNI
Sólveig segir okkur öll búa yfir heilbrigðri skynsemi sem auðvelt er að nota. Það þurfi í raun ekki að leita of langt yfir skammt, við vitum öll að brasaður matur er óhollur og að of mikil sætindi valdi þyngdaraukingu.
„Ég held að fólk átti sig betur og betur á því að það er heilbrigða skynsemin sem á að ráða ferðinni í þessu. Ef fólk vill taka til í mataræðinu er best að halda bara matardagbók í eina viku. Hver heilvita manneskja getur tekið út þrjú Pipp eða auka rúnstykki og sett epli í staðinn. Við getum alveg hjálpað okkur sjálf. Svo verðum við að muna að við erum misjöfn og það þola ekki allir allt þegar kemur að mat. Skyr leggst kannski vel í eina manneskju og illa í aðra. Sumir þola hvítkál og aðrir ekki. Það þarf að pússa rykið af heilbrigðu skynseminni. Það er svo margt sem við getum sagt okkur sjálf. Berðu saman krukku af hnetusmjöri sem er bara hnetur og hinu sem er fullt af viðbættum sykri og aukaefnum. Það segir sig sjálft að þetta sem er bara hnetur er hollara. Ef þér tekst að trúa því að lífrænt hnetusmjör séu engar öfgar og það megi alveg borða það á bónusbrauði, þá ertu komin vel á veg.“
…. Framhald síðar
FRÓÐLEIKSMOLAR
Á Vísindavefnum er að finna ágætis skilgreiningu á þeim undirflokkum sem kenna sig við grænmetis- og jurtaætur. Þar segir m.a. frá vegans og lacto-ovo-vegetarians.
- „Semivegetarian“ er sá sem neytir jurtafæðu og útilokar sumar dýraafurðir úr neyslu sinni. Algengt er að neyslu á rauðu kjöti sé sleppt en að fuglakjöt og sjávarfang sé stundum á borðum. „Semivegetarian“ neytir mjókurafurða og eggja.
- „Lacto-ovo-vegetarian“ neytir eggja og mjólkurafurða úr dýraríkinu en annars eingöngu jurtaafurða.
- „Lacto-vegetarian“ neytir mjólkurafurða en þar fyrir utan einungis jurtaafurða.
- „Vegan“ útilokar allar dýraafurðir úr fæðu sinni, en neytir allra jurtaafurða.
- „Fructarian“ borðar eingöngu jurtaafurðir sem má tína án þess að skemma móðurjurtina samkvæmt mismunandi þröngum skilgreiningum.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.