Margir kannast við hina skemmtilegu Sunnu Dís Másdóttur úr þáttunum Útsvari en hún keppti þar með Vestfjarðaliði.
Við fengum Sunnu til að svara nokkrum ferðaspurningum en síðastur var það Atli Fannar Bjarkason sem sagði okkur allt um ást sína á Svíþjóð og við komum til með að halda uppi þessum skemmtilega lið á PJATT.is enda flestir í ferðahug þessa dagana.
Hver er uppáhalds borgin þín í heiminum?
Á uppáhaldslistanum mínum eru Saigon í Víetnam (sem reyndar heitir Ho Chi Minh City en mér finnst Saigon miklu rómantískara svo ég held mig við það), París, Búdapest og jú, New York, þó ég hafi tæplega komið þangað, get því miður ekki nefnt bara eina borg.
Hefurðu komið þangað oft og hvernig var þín fyrsta ferð?
Í ofannefndar borgir hef ég allar komið einu sinni. París var fyrst, ég var fimmtán ára á ferð með fjölskyldunni og ég elskaði hverja mínútu. Ég smakkaði franska lauksúpu í fyrsta sinn, svolgraði að mér andrúmsloftið í Latínuhverfinu og gerði mitt besta til að vera skilin eftir eitt vorkvöld við Signu. Það mistókst.
Til Búdapest kom ég nokkrum árum síðar og varð skotin í henni um leið. Það er yfir henni einhver sjarmi, einhver andi gamals stórveldis og þó hún sé stór er hún ekki yfirþyrmandi. Við bjuggum í íbúð í tignarlegu, gömlu húsi sem var í alveg passlegri niðurníðslu fyrir rómantíkusinn í mér. Mér leið eins og persónu í skáldsögu allan tímann sem ég dvaldi þar.
Saigon var upphafsstöð og endapunktur mánaðarferðalags um Víetnam og fyrstu kynni mín af Asíu. Hún er asísk, en með evrópsku bragði frá nýlenduárunum og alveg sérlega ljúffengur kokteill. Í mínum huga er hún líka nátengd bragðlaukunum – hver einasta máltíð sem ég snæddi í Saigon var ljúffeng.
Í New York hef ég bara millilent einu sinni. Ég varði alls fimm tímum í SoHo, vansvefta, í ástarsorg, og ringluð, en almáttugur hvað ég naut þess samt. Ég þrái að snúa aftur. Á sumum stöðum skynjar maður orku sem harmónerar við manns eigin og New York harmónerar við mig.
Áttu uppáhalds veitingastað í borgunum?
Saigon er á þessum lista fyrst og fremst vegna matarins. Ó, maturinn. Víetnamskur matur er sá besti sem ég hef borðað. Random skál af pho-núðlusúpu á götuhorni er betri en flestur veitingastaðamatur annars staðar. Allrabesti maturinn var sá á Temple Club. Mig dreymir ennþá um fiskinn í sítrónusósunni og fersku vorrúllurnar. Ég get ekki mælt nægilega með þeim góða stað.
Hvernig væri fullkominn dagur í borgunum?
Á fullkomnum degi – þetta er að sjálfsögðu eftir að svona teleport-græjur verða aðgengilegar almenningi – myndi ég vakna í París og drekka kaffi og borða morgunmat úti á gangstétt á einhverju huggulegu bistróinu. Ég myndi heimsækja útimarkað og gramsa í gömlu dóti, stinga nefi inn í búðir þar sem ég mun aldrei hafa efni á neinu og hvíla mig í skugganum af stóru tré einhvers staðar nálægt Sacre-Coeur, þaðan sem útsýnið er óborganlega fallegt.
Þar næst skryppi ég til Saigon og snæddi hádegismat á, einmitt, Temple Club. Hann yrði langur og ljúfur og helst í góðra vina hópi, þar sem allir panta einn rétt og svo smakkar maður allt. Eftir matinn kíkti ég kannski á Ben Thanh markaðinn þar sem allt og amma hans er til sölu til að brosa við vinalegu, víetnömsku sölumönnunum og láta líklega svindla á mér. Það gerist þegar ég er södd og sæl.
Svo myndi ég vippa mér til Búdapest og kæla mig niður í Széchenyi-sundhöllinni. Sem er bókstaflega í höll. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um það, held ég. Eftir sundið fengi ég mér smá húsaskoðunargöngutúr um borgina og léti mig dreyma um fólkið sem einu sinni bjó í þessum fallegu húsum. Deginum lyki með þriggja rétta kvöldverði og barrölti í New York; einn réttur eða drykkur á hverjum stað. Á draumalistanum eru til dæmis Momofuku staðirnir.
Eru góðir picnic staðir í borginni?
Ef ég þyrfti að velja einn góðan pikknikkstað úr öllum þessum borgum yrði það klassíkin: Central Park. Frönsku almenningsgarðarnir í París eru vissulega heillandi líka, en þar sem ég hef enn ekki legið á teppi í hinum víðfræga miðgarði yrði sá auðvitað fyrir valinu.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.