Loks er sumarið komið, tími opinna sandala, sumarkjóla og litadýrðar. Þar sem fataskápur minn er fremur svartur flesta daga ársins, svona eins og veðrið… þá fagna ég sumri með því að klæðast litríkari fötum.
Oft verð ég hugfangin af einum lit sérstaklega. Í fyrra var það appelsínugult, þar á undan túrkís, dökkbleikt og hvítt en nú í sumar er ég sérstaklega heilluð af apríkósulit.
Apríkósulitur er svipaður og ferskjulitur bara ljósari.
Einstaklega sumarlegur litur og fer sólbrúnni húð mjög vel.
Ég hef nú þegar fengið mér bol, hálsklút, sokkabuxur, nærföt og gloss í þessum lit og ég brá á það ráð að blanda saman þrem naglalökkum í gostappa til að fá rétta apríkósulitinn, gott sparnaðarráð ef maður á appelsínugult, bleikt og beinhvítt naglalakk.
Á tískupöllunum mátti sjá ljósan apríkósulit og jafnvel svo fölann að hann líktist húðlit “nude” eins og Versace-kjóllinn sem Blake Lively er í hér að neðan.
Nú skarta ég glæsilegum tám og get poppað upp klæðnaðinn með smá skvettu af apríkósulit með öðru 😉
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.