Ég skellti mér til Vestmannaeyja í helgarferð um daginn en eftir að Landeyjarhöfn var opnuð er minnsta mál að fara til Eyja í helgarferð, eða jafnvel dagsferð, þar sem það tekur einungis tæpar þrjátíu mínútur að sigla yfir með Herjólfi.
Þegar ég fór að skoða mig um á Internetinu til að athuga hvað ég gæti gert í Eyjum, rakst ég á heimasíðu Ribsafari.is en þeir bjóða upp á Tuðruferðir á ótrúlega flottum gúmmíbátum sem kallinn minn vill kalla Ofurgúmmíbáta en maður situr í þeim eins og á hestbaki og þeytist um sjóinn á ofurhraða.
Ég mætti í blíðskaparveðri niður á höfn og tóku ekta eyjamenn við mér þar sem ég var dressuð upp í hlýjan galla og björgunarvesti (svona til vonar og vara) og voru að sjálfsögðu fullt af útlendingum sem komu með. Ég var örlítið hrædd um að vera hrædd en það kom mér svo á óvart hvað ég var örugg í bátnum og hvarf hræðslan fljótlega þegar ég fann hvað ég naut þess í botn að sjá allt þetta fallega landslag, finna fyrir vindinum í hárinu og skoða alla hellana sem við fórum inn í.
Kallinn minn kom með mér og gátum við meira segja upplifað rómantík en inn í einum hellinum var bátur þar sem var spilað á saxafón “Ég veit þú kemur í kvöld til mín” og ómaði tónlistin um allan hellinn eins og í ekta tónlistarsal.
Rib Safari bjóða upp á allskonar ferðir en hægt er að fara í Grillferð sem er tilvalin fyrir starfsmanna- og vinahópa, siglingu um eyjarnar Ásey, Brand og Suðurey ásamt fleiri skemmtilegum ferðum sem fólk á öllum aldri hefur gaman að.
Á meðan siglingunni stendur er að sjálfsögðu fararstjóri sem segir manni sögu Vestmannaeyja ásamt heiti á staðarnöfnum og fleira, sýnir okkur allskyns fugla og ef maður er heppinn þá sjást oft háhyrningar.
Ég get með sanni sagt að ég mæli algjörlega með þessari upplifun þar sem andrenalínið fer í botn, maður nýtur náttúrunnar og ef þetta er ekki lífið, þá veit ég ekki hvað.
Það er tilvalið að bjóða kallinum t.d. í óvissuferð til Eyja, panta svona ferð, fara út að borða og koma svo með síðustu ferðinni heim!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.