Það tekur örskots stund að verða ástfanginn í sól og sumaryl og nú þegar rigningar sumarið mikla stendur enn yfir með drunga sínum og dauflyndi má búast við því að Íslendingar flýji á náðir sólarstranda á suðrænum slóðum, m.a. til þess að sletta ærlega úr klaufunum og auðvitað til þess að sóla kroppinn.
Heitur andblær og nakin undir kjólnum
Það er fátt sem íslenskar konur elska meira en að geta klæðst efnislitlum, þunnum kjólum eða stuttbuxum og fundið heita golu leika um fæturna. Sumar bæta um betur og njóta þess líka að vera án nærfata.
En snúum okkur að ljúfri sumarástinni. Eitt af einkennum sumarásta er að þeim er ekkert endilega ætlað að endast alla ævi og flestir líta á slíkan rómans sem stutt og skemmtilegt ævintýri.
Mér lék hugur á að heyra í konum sem hafa reynslu af sumarástum í suðrinu sæla. Í gegnum tíðina hafa allskyns konur á öllum aldri ferðast til Miðjarðarhafsins á sumrin – með mismunandi væntingar í huga, en eitt eiga þær líklega allar sameiginlegt; að falla fyrir sjarma og framandleika innfæddu karlmannanna.
Fátt er rómantískara en að leiðast hönd í hönd undir stjörnubjörtum himni á heitri sumarnóttu með ástríðufullum karlmanni sem eys yfir þig gullhömrum, kaupir rós handa þér á hverju horni og drekkir þér í kampavíni. Er það nema von að þú fallir kylliflöt fyrir honum?
Svo rennur kveðjustundin óhjákvæmilega upp og blákaldur hversdagsleikinn blasir við. Íslenska haustið er að skella á og þér finnst þú vera að vakna upp af löngum, munúðarfullum draumi. En eru þessar sumarástir aðeins tálsýnir, eða hvað?
Það er líklega allur gangur á því. Margar konur fleygja sér í svona sambönd með opin augu, meðvitaðar um að þær eiga aldrei aldrei að fá meira út úr sambandinu en að upplifun heitarar, rómantískrar ástar í tvær vikur. Aðrar halda áfram að láta sig dreyma eftir að heim er komið. Þá vill oft brenna við að suðræni sjarmurinn verði sífellt meiri sjarmör í minningunni og þá getur verið notalegt að ylja sér við minningarnar á köldum vetrarkvöldum – nú eða gera eitthvað í málinu …
Sumarskotið varð ást að eilífu
Hér koma frásagnir tveggja kvenna sem voru reiðubúnar að segja okkur frá því hvernig þær kynntust ástinni undir heitri sumarsól. Önnur gat ekki gleymt ástmanni sínum en hin leit á þetta sem rómantískt ævintýri sem hafði enga eftirmála.
Eva er nemi við HÍ og í fyrravor ákvað hún að skella sér í ferð til Kýpur með Ragnheiði vinkonu sinni:
Þegar ég settist upp í flugvélina grunaði mig ekki að mánuði seinna yrði ég aftur á leiðinni á sama stað! Ég kynntist Sam fyrir algjöra tilviljun. Við vinkonurnar ætluðum saman á köfunarnámskeið en Ragnheiður kaus frekar að sofa út þann daginn. Það fór því svo að kennarinn ákvað að kafa með mér því ég var án félaga. Það var meira en í lagi, þetta var sérlega flottur maður og kynþokkafullur. Hann bauð mér á stefnumót sama kvöld og við hittumst á ákveðnum bar. Þar féllumst við fljótlega í faðma og vorum orðin par. Fríinu lauk án þess að við töluðum um að halda sambandinu áfram.
Lífið er of stutt fyrir leiðindi
Hálfum mánuði eftir heimkomuna vaknaði ég einn morguninn og ákvað að ég yrði að hitta hann aftur. Lífið er of stutt til þess að velta svona hlutum of mikið fyrir sér og ég var komin til Kýpur viku seinna. Sam beið mín á flugvellinum með stóran blómvönd. Hann var alveg jafn fallegur og í minningunni og ég vissi strax að ég hafði gert rétt. Við áttum dásamlegan mánuð saman. Við höldum enn reglulegu sambandi, hittumst síðast yfir jólin. Hann kemur í fyrsta sinn til Íslands núna í ágúst og ég get varla beðið eftir því að sjá hann. Innra með mér veit ég að við Sam eigum eftir að vera saman um aldur og ævi.
Funheit faðmlög í sjávarmálinu
Sagan hennar Siggu Láru, sem er 34 ára hagfræðingur, endaði með öðrum hætti. Hún upplifði eldfima ást á Taílandi en hefur enga löngun til þess að hitta elskhugann aftur:
Ég féll kylliflöt fyrir Taílandi og ástarævintýrið með Ningh var hluti af þessari yndislegu upplifun.
Ningh vann á bar við ströndina og við kynntumst fljótlega eftir að ég kom á staðinn. Ég heillaðist m.a. af því hvað hann var dökkur og framandi, það verður að viðurkennast! Saman upplifðum við rómantískan draum í þessar exótísku Paradís. Hann kunni lítið í ensku en það skipti okkur engu. Það var mikið um ástríðufull faðmlög í sjávarmálinu og í sandinum – undir stjörnubjörtum næturhimni. Mér þótt mjög vænt um Ningh en hvorugt okkar ætlaðist til framhalds á ævintýrinu. Við vissum að við myndum aldrei hittast aftur og kannski skapaði það enn meiri spennu. Ég var auðvitað dálítið döpur þegar við kvöddumst en svo tók tilhlökkunin yfir að koma heim, brún og sæt, yfirhöndina. Sumarleyfinu var lokið. Og það var sérlega vel heppnað!
Skemmtilegar sögur og eflaust eiga margar samlöndur okkar eftir að upplifa sambærilega rómantík eftir þetta stóra rigningasumar enda sjaldan sem jafn margir hafa ferðast á suðrænar slóðir í sumarfríinu.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.