Við fengum smá forsmekk af sumrinu um helgina síðustu og sjálf var ég úti allan sunnudag, fór í sund og gekk um líflegan bæinn í góðum félagsskap. Ég var léttklædd í sumarkjól en tók ábyrga stöðu og var með sólarvörn nr 50 á andliti og 20 á líkama. Ég brann auðvitað ekkert en fékk þó bæði freknur og smá lit.
Við íslendingar eigum það til að æða út í sólskinið eins og kýr að vori sem halda að ekki muni sjást til sólar aftur. Mottóið er að reyna ná í smá lit á meðan það er hægt, nýta sólina til hins ítrasta!!
En með þunna ósonlagið okkar og viðkvæma húð er algjör vitleysa að verja sig ekki.
Margrét var með mjög þarfan pistil um daginn sem allir ættu að lesa og horfa á myndbandið. Húðkrabbi er ekkert grín og við verðum að gera það sem við getum til að verja húðina okkar “sem aldrei gleymir” eins og ein sagði í myndbandinu.
Sjálf brann ég illa á bringu þegar ég var fjórtán ára og í mörg ár á eftir var ég mjög fljót að brenna á sama stað og það sem ótrúlegt var að það sást greinilega bikínifarið eftir bikiníið sem ég var í þegar ég brenndist um árið!!
Það var margmenni í bænum á sunnudag, allir glaðir og léttklæddir að njóta sólar en svo gengu ferðamenn um kappklæddir og tóku myndir af rauðnefjuðum ofur-hamingjusömum íslendingum, við erum nú pínu skondin 😉
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=E_v468ptuXw[/youtube]
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.