Náttúrulegt útlit í förðun kemur með vorinu þar sem að við viljum oft leyfa húðinni að njóta sín sem best og fá smá lit í leiðinni. Það er ofur einfalt að skapa þessa tegund af förðun og þú þarft nokkrar grunnvörur til þess.
Hér eru nokkur skref í áttina að náttúrulegu og frísklegu útliti:
GOTT KREM
- Mundu að hugsa vel um húðina og bera á þig gott andlitskrem og augnkrem. Þetta gerir það að verkum að farðinn verður fallegri á húðinni.
SÓLARVÖRN
- Ekki gleyma sólarvörninni! Á vorin og sumrin á Íslandi er nauðsynlegt að nota sólarvörn daglega þar sem að sólin er mjög sterk hér, þó það sé ekki alltaf heitt.
HYLJARI
- Settu hyljara undir augu og í kringum nef. Gott ráð er að nota tvær gerðir hyljara, einn með bleikum/ferskjutón sem grunn til að eyða út dökkum lit undir augunum.
FARÐI
- Ef þú kýst að nota farða, taktu litað dagkrem eða farða sem hentar þinni húðgerð og berðu á húðina með bursta eða svampi. Ef þú vilt geturðu sleppt því að setja farðann yfir allt andlitið og notað hann bara á vandamálasvæði til að jafna út húðlit.
PÚÐUR
- Notaðu örlítið púður í hlutlausum lit (transluscent) til að losna við glans á enni, nefi og höku.
Dustaðu því yfir með bursta eða notaðu púða. Ef þú þarft á því að halda geturðu sett púðrið yfir allt andlitið en fyrir mitt leyti finnst mér fallegra að húðin hafi fallegan gljáa í staðinn.
SÓLARPÚÐUR
Dustaðu sólarpúðri með bursta yfir þau svæði þar sem sólin fellur á andlitið fyrir náttúrulegt útlit. Þau svæði eru yfirleitt kinnbein, fyrir ofan augnbein, á nef og höku. Ekki gleyma hálsinum.
KINNALITUR
Settu kinnalit í náttúrulegum lit á “eplin” á kinnunum. Til að finna rétta staðinn; brostu! 🙂
AUGNSKUGGI
Ef þú kýst augnskugga geturðu sett ljósan vanillutón yfir allt augnlokið upp að augabrún og miðlungslit á augnlokið sjálft.
MASKARI
1-2 umferðir af maskara ættu að nægja en þú vilt aðeins sterkara útlit geturðu tekið dökkan augnskugga með rökum mjóum bursta og sett við augnháralínuna til að draga augun meira út. Línan ætti alltaf að vera þykkari við efri augnháralínu.
VARALITUR
Berðu á þig varalit eða gloss sem er eins nálægt þínum náttúrulega lit og mögulegt er, nema örlítið sterkari. Ef þú vilt geturðu notað varablýant með.
Þess má geta að förðunarmeistarinn Bobbi Brown notar margar þessara aðferða við kennslu hjá sínum förðunarfræðingum og kúnnum.
Þú getur svo bætt við eða dregið úr, allt eftir því hvað þér sjálfri finnst þægilegast. Leyfðu þér sjálfri að skína í gegn í vor og sumar!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com