Sumarið er tíminn! Tími til að fara út og leika sér, hvort sem við erum stór eða smá. Það er svo ótalmargt í boði að erfitt er að velja og helst langar mig til að prófa allt sem er á þessum lista hér fyrir neðan.
Það er allavegna um að gera að gera eitthvað! Ég tók saman nokkrar hugmyndir af útivist fyrir fjölskylduna, sumt hentar að vísu ekki börnum en það er líka nauðsynlegt fyrir pör eða vini að eiga einn og einn dag án þeirra.
1. Adrenalíngarðurinn
Í Adrenalíngarðinum á Nesjavöllum eru 45 þrautir í mismunandi hæðum. Hver og einn velur í hvaða hæð hann vill byrja og svo er hægt að fikra sig áfram í stærri áskoranir. Þar er einnig svifbraut (85m) og Risaróla (12m há) En hrikalega gaman er að skella sér í eina risaróluferð. www.adrenalin.is
2. Snorklað í Silfru
Frábært ævintýri er að snorkla í kristaltæru vatninu í Silfru. Best er auðvita að fara með fólki sem hefur reynsluna og þekkingu og getur leitt þig áfram. Upplifun sem gleymist seint! (www.arcticrafting.is, dive.is )
3. Rafting
Ótrúlega spennandi er að skella sér í adrenalínferð á Jökulsár eystri eða rólega útsýnisferð á Hvítá. Eftir ferðina er hægt að borða gott nesti eða jafnvel grilla út í náttúrunni. (www.arcticrafting.is)
4. Svifflug
Svifflugfélag Íslands býður upp á 20-30 mínútna kynningarflug með vönum flugmanni….spennandi og eitthvað sem maður gerir ekki á hverjum degi. Tilvalið fyrir pör sem vilja hrista aðeins upp í sambandinu og njóta dagsins saman. (www.svifflug.com )
5. Sjókajakferðir
Ógleymanleg kajak ferð í Hvalfirði er ótrúlega spennandi, frísklegt og skemmtilegt. Á sumrin er boðið upp á skipulagðar sjókajakferðir í Hvalfirði þar sem öll grundvallaratriði eru kennd áður en lagt er í hann. ( www.arcticrafting.is )
6. Bláa lónið
Við gleymum oft Bláa lóninu, teljum þetta vera stað fyrir túrista. En málið er að Bláa lónið er náttúruperla á heimsmælikvarða, ef ekki bara sú besta í heiminum. Fegurðin, aðstaðan, þjónustan og veitingarnar eru til fyrirmyndar. Tilvalinn staður til að slaka á í gufu, heita vatninu, skella sér í slökunarnudd og helst eyða heilum degi í slökun. Dásamlegur staður fyrir fólk sem vill njóta lífsins. (www.bluelagoon.is)
7. Kajak
Á Stokkseyri er hægt að fara í alls kyns kajakferðir um fenjasvæði eða sjó með Kajakferðum. Fólk getur komist í návígi við fuglalíf og sel. Til að fullkomna daginn er hægt að skella sér á Fjöruborðið á Stokkseyri og gæða sér á lúxus humar. Yndislegur og kósí staður með dásamlegan mat. (www.kajak.is http://nyr.fjorubordid.is/ )
8. Klettaklifur
Á Hnappavölum í Öræfasveit og Valshamri í Hvalfirði er hægt að spreyta sig á ögrandi klettaklifri á þess að hafa nokkra reynslu af slíku. Krefjandi og skemmtileg útivist sem tekur á. ( www.klifur.is , www.arcticrafting.is )
Útivist sem kostar ekkert
9. Hvaleyrarvatn
Dásamlegt er að fara í gönguferðir í kringum Hvaleyrarvatn eða hluta af því. Umhverfið er ofur fallegt og krakkarnir njóta sín líka mjög vel í náttúrunni. Vinsælt hjá krökkunum er að veiða síli, vaða í vatninu og leika sér í sandinum. Foreldrarnir geta grillað á sameiginlegu grilli og notið sín í sólbaði á meðan krakkarnir leika sér.
10 .Helgafell
Frábær gönguleið er upp á fjallið Helgafell. Huggulegt að hafa smurt nesti með í för og njóta dagsins með fjölskyldunni.
11. Esjan
Gönguferð upp Esjuna er líka klassík. Útsýnið er óborganlegt og það er eiginlega skylda okkar Íslendinga að fara að minnst einu sinni upp Esjuna.
12. Hjólaferðir
Hjólaferðir eru mjög vinsælar núna og góðar hjólaleiðir eru um alla borg. Bara muna eftir nestinu því það tekur á að hjóla og það er ljúft að geta sest niður og notið lífsins með gott nesti á milli þess sem hjólað er.
13. Elliðarárdalurinn
Smá skógur og falleg á liggur niður Elliðarárdalinn. Þegar ég var lítil kölluðum við dalinn Indíánagil, það gerði staðinn enn meira spennandi. Börnin njóta þess að svamla í vatninu, hlaupa um í skóginum á meðan foreldrarnir slaka á í fallegri náttúruperlu inn í miðri borg. Þarna er hægt að grilla og góð aðstaða til að borða mat/nesti. Einnig er hægt að hoppa í fossinn ef veðrið er gott.
14. Ægisíðan
Þar er frábær göngu og hjólastígur. Vinsælt er að fara á línuskauta og slaka svo á í fjöruferð á eftir. Veitingahúsið Nauthóll er staðsettur við enda gönguleiðarinnar og er dásamlegt að kíkja í einn kaffibolla þarna í góðu veðri.
15. Laugardalurinn
Fullkominn staður til að gleyma sér á, hægt er að skoða grasagarðinn. Fara á kaffihús eða setjast á teppi og hafa huggulegt nesti með í för. Sundlaugin er handan við hornið og tilvalinn staður til að enda daginn á.
_______________________________________________________________
Njótum sumarsins og okkar dásamlegu náttúrufegurð!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.