Nýlega kom út hjá Vöku-Helgafelli bókin Sumar án karlmanna eftir Siri Hustvedt. Ég gat ekki með nokkru móti staðist þennan forvitnilega titil og nældi mér í eintak.
Það jók svo enn á áhuga minn að ég vissi fyrir að Siri er gift einum af uppáhalds rithöfundunum mínum; Paul Auster, og hefur notið samvista við þann furðufugl og snilling í ein 30 ár. Ég hafði heyrt aðeins af bókum hennar og gladdist yfir að sjá þessa bók í lipurri þýðingu Nönnu Þórisdóttur.
P(j)ása með stór brjóst og ferköntuð gleraugu
Þegar sagan hefst eru Boris og Mía að skilja. Eftir 30 ára hjónaband vildi Boris nefnilega taka “pásu”, eins og hann orðaði það. Nú, pásan sú reyndist vera: ,,Frönsk með linkulegt en glansandi dökkt hár. Hún var með stór brjóst, náttúruleg en ekki manngerð, mjó ferköntuð gleraugu og bráðgáfuð.“
Svo var p(j)ásan líka 20 árum yngri en Mía og okkar kona krassaði í taugaáfalli inni á geðdeild. Ég er ekki að ljóstra upp leyndarmáli úr sögunni, þetta kemur fram þegar á fyrstu blaðsíðu. Það atvik vakti heldur betur áhuga minn og því voru það viss vonbrigði hversu fljótt vistinni á geðdeildinni lauk. Ég hefði svo gjarnan viljað fá lengri og fleiri lýsingar af þeirri lífsreynslu Míu.
Dulin og opinská átök
En að sjálfsögðu vill Mía reyna að skrimta áfram án Boris og magnlítil og afar dauf í dálkinn leitar hún á æskuslóðirnar til þess að sleikja sárin. Smám saman lyftist á henni. Hún heldur bókmenntanámskeið sem kostulegar táningsstúlkur sækja og fer að skoða lífið hjá móður sinni og háöldruðum, indælum vinkonum hennar. Sagan snýst um naflaskoðun söguhetjunnar. Eða eins og segir á bókarkápunni: ,, … Tengsl fólks og togstreita, dulin og opinská átök, leyndir draumar og sagðar og ósagðar sögur, allt verður það Míu að efnivið í endurskoðun á lífinu og verðmætum þess.“
Gáfulegar tilvitnanir
Þótt bókin sé vel skrifuð, átti ég erfitt með að einbeita mér við lesturinn. Höfundurinn hóf feril sinn sem ljóðskáld og ber bókin þess nokkur merki, að mínu mati. Siri Hustvedt notast einnig mikið við tilvitnanir sem hún droppar hér og þar í sögunni; jafnvel sjálfur Shakespeare er brúkaður. Það fer ekki á milli mála að höfundurinn er víðlesinn og fjölfróður en þegar til lengdar lætur gefa þessar tilvitnanir sögunni ögn tilgerðarlegan blæ, kannski var það samt bara ég?
Ég myndi hiklaust kalla þetta bók fyrir grúskara, þær sem eru vel inni í sálgreiningu og jafnvel heimspekilega þenkjandi en hún hefur víða fengið afbragðsdóma.
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.