Íslenskar konur eru taldar meðal fegurstu kvenna. Það dugar hins vegar skammt að vera sæt ef klæðaburðurinn er smekklaus og gerir lítið fyrir þig annað en að aflaga vöxtinn.
Gott dæmi um hvernig íslenskar konur gera sig furðulegar í vextinum er þegar þær skella sér í kvartbuxur og hælaskó í stíl. Ef þú vilt látta fótleggina virka styttri – þá skaltu endilega smella þér í kvartbuxur en ef þú, eins og flestar konur, vilt hafa langa fætur þá hentu öllum kvartbuxum út úr skápnum.
Það eina sem kvartbuxur gera er að stytta lengd leggjanna og fyrir vikið styttist líkaminn einnig.
Og nú langar mig að kvarta undan kvart-buxum:
Buxur með síðum skálmum lengja fótleggi og þetta er eitthvað sem lágvaxnar konur ættu að hafa hugfast. Einnig er mjög algengt að sjá konur í kvart-leggings en það sama gildir um þær og kvartbuxur, þetta styttir fótlegginn. Því miður er ekki hægt að berjast á móti kvart-leggings um þessar mundir – til þess er tískan of sterk, en konur ættu að hafa í huga að láta þær ná sem lengst niður á fótlegginn og lengja hann þannig. Ekki láta leggings ná bara rétt fyrir neðan hné.
Ef þú vilt kíkja á kvartbuxnatískuna þá nægir að skreppa í Kringluna á góðum degi og sjá þar mjög margar konur í kvartbuxum – en af hverju þær klæðast þessu er mér hulin ráðgáta.
Og af hverju enginn hefur sagt þeim hvað þetta er óklæðilegt er enn óskiljanlegra. Yngri konur eiga það líka til að misstíga sig í buxnavali. Þá helst þegar þær fara í gallabuxur og bretta upp á skálmarnar þannig að síddin verði kvart. Við þetta er síðan smellt hælaskóm og útkoman verður ansi strumpaleg, vægast sagt.
Fáar konur taka sig vel út í kvartbuxum. Það eru aðeins háar og grannvaxnar konur sem bera þetta þokkalega og við íslensku konurnar erum bara fæstar þannig og flestar með langt bak og stutta fótleggi. Það er alveg sama hvað kvartbuxur eru mikið í tísku eða hvað afgreiðslufólk í verslunum reynir að sannfæra þig um ágæti þeirra.
Kvartbuxur stytta fótlegginn og hana nú!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.