Laugardagskvöld eru bara dálítið góð djammkvöld. Fór út í fylgd nokkurra vina. Fyrir valinu varð vinsæll staður þar sem páfuglar bæjarins breiða út fjaðrir sínar í allar áttir…
Úr því verður oft heilmikið fjaðrafok:
Allt að gerast, allir í stuði út um allt og alls staðar. Djúsað, dansað og djöflast á barnum og gólfinu.
Á dömusalerninu var ekki minna fjör en við barinn og á dansgólfinu. Þar voru mjög sætar stelpur en svo útúrdrukknar að það var hálfömurleg sjón.
Brjóstin flæðandi yfir allt, buxurnar sitjandi á lífbeininu og allar gjammandi. Ein hrækti framhjá mér og lenti slumman í baðvaskinum, heppin þarna að fá þetta ekki á mig.
Tvær studdu sig við spegilinn til að halda jafnvægi í vímunni á meðan þær bættu smá augnskugga á sig.
Einhver stúlkan rak við og um tíma minnti lyktin á fnyk af dauðri mús sem farin er að mygla. Hávært bank og garg sló síðan undirtóninn, svo virtist sem ómurinn bærist inn frá karlaklósettinu, frá konu og manni í leik.
Það er áhugavert að sjá hvað beið síðan stúlknanna frá salerninu því núna voru karlmenn í miklum meirihluta farnir að fylla staðinn.
Þeir röðuðu sér upp við barinn og biðu. Sumir fallegir, þó ekki nærri allir. Sætu stelpurnar slæddust loks aftur inn á gólfið, ein og ein, eins og rjúpur á miðju skotveiðitímabili.
Það er sárt að vita að sífellt fleiri konur meiða sig á djamminu.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.