Arnaldur Indriðason
Útgefandi: Vaka-Helgafell
Fjöldi síðna: 300
Sagan um stúlkuna hjá brúnni er 21. skáldsaga Arnalds Indriðasonar.
Í umfjöllun á Bókmenntaborginni skrifar Úlfhildur Dagsdóttir:
„Bókin hefst á því að ungur maður finnur stúlkulík í Reykjavíkurtjörn. Árið er 1961 og ekki löngu síðar verður hin tólf ára Eygló fyrir því að sjá svip stúlkubarnsins, sem leitar einhvers. Næst er lesandanum kippt inn í samtímann þar sem Konráð, lögreglumaður á eftirlaunum, er næstum þvingaður til að aðstoða virðuleg hjón við að leita að dótturdóttur þeirra sem er háð eiturlyfjum. Í kjölfarið hefst svo atburðarás leitar og rannsókna þar sem við sögu koma upprifjanir Konráðs á lífi og dauða föður síns sem var svikamiðill og myrtur þegar Konráð var rúmlega tvítugur. Hluti þessara upprifjana tengist svo Eygló sem nú er orðin fullorðin kona. Hún er dóttir manns sem faðir Konráðs starfaði með, en sá hafði miðilshæfileika sem hann misnotaði – og arfleiddi dóttur sína að. Eygló segir Konráð söguna af stúlkunni og biður hann að reyna að grafast fyrir um það mál, sem Konráð gerir, sér þvert um geð, en hann hefur enga trú á hinu yfirnáttúrulega. Stúlkan hafði birst Eygló á ný og nú kom hún því á framfæri að hún saknaði brúðu sinnar. Inn í mál þessara tveggja týndu stúlkna blandast svo tilraunir Konráðs við að leysa mál föður síns, en morðingi hans fannst aldrei.”
Eineygðar dúkkur og draugastelpur
Nú kem ég mér bara beint að efninu, tala út úr skegginu (sem ég er reyndar ekki með) og viðurkenni að mér fannst þetta hreint ekkert sérstaklega góð bók. Í fyrsta lagi finnst mér hún alveg uppfull af klisjum. Byrjum bara á dúkkunni sem flýtur í tjörninni með aðeins eitt auga og úfið hár. Hversu oft höfum við ekki séð ónýtar dúkkkur sem ætlað er að vekja með okkur óhug?
Svo er það draugagangurinn. Ef maður ætlar sér að skrifa draugasögu í dag, eða bara fléttu sem gengur út á draugagang, þá held ég að það væri nú skynsamlegra að nota eitthvað annað konsept en stúlkubarn í slitnum kjól. Eða hvað finnst þér?
Og þá eru það undirheimar eiturlyfjafíklanna. Nú hefur töluvert verið fjallað um þennan heim bæði í bókum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á síðustu misserum. Fangar, Lof mér að falla, Lof mér að lifa ofl. Þar tekst höfundum mun betur að endurspegla þá vansæld sem fylgir þeim hörmungarheimi.
Þegar ég las lýsingar Arnaldar upplifði ég í sjálfu sér bara tæplega sextugan mann reyna að lýsa veröld sem hann hefur aldrei kynnst af eigin hendi (ég tek alveg á mig skömmina ef ég hef rangt fyrir mér í því) og þar með fannst mér hann einhvernveginn hálf latur í vinnunni. Kannski rúntaði hann um með löggunni þegar hann undirbjó Mýrina en mikið hefur breyst í þessari veröld síðan Mýrin var skrifuð fyrir 18 árum.
Sannfærandi pervert
Hvað persónusköpunina varðar þá þykir mér hún misgóð. Ógeðsperrinn sem Konráð heimsækir í leit sinni að sannleikanum varð t.d. mjög ljóslifandi í huga mér og sama má segja um ömmu og afa stelpunnar en ég átti í einhverju basli með að sjá ansi margar aðrar persónur fyrir mér. Kannski stafaði það að hluta til af nöfnunum sem Arnaldur valdi á sögupersónurnar?
Teódór, Konráð, Engilbert, Húgó, Málfríður, Eymundur, Nikulás, Lúther, AJ Hillman, Svanbjörn.
Allt eru þetta hálf furðuleg nöfn og í mínum furðulega heila flæktist þau fyrir hvort öðru. Hvað þekkir þú margar Málfríðar, Húgóa, Nikulása og Engilberta? Ég verð að viðurkenna að á minni a.m.k hálfnuðu ævi hef ég ekki kynnst neinum með þessi nöfn, og þó hef ég víða farið.
Visa sem aldrei verður of oft kveðin
Svo ég hakki þetta nú ekki alveg í mig eins og gömul kona hakkar kindakjöt í kæfu þá verður að segjast að sagan þéttist ágætlega þegar á líður. Þá er það jafnframt af hinu góða að Arnaldur beini sjónum sínum enn og aftur að heimilisofbeldi. Við vonumst jú til að refsingar við þessum brotum verði í samræmi við skaðann sem þau valda, eftir því sem fleiri gera sér grein fyrir alvarleika málsins, – og því verður sú vísa aldrei of oft kveðin.
Þó verð ég að viðurkenna að mér finnst nálægð hans við kynbundið ofbeldi ekki komast í hálfkvisti við það sem ég hef lesið hjá öðrum norrænum glæpasagnahöfundum. T.a.m Nesbo og Kepler hjónin (sem mér þykja framúrskarandi flínk).
Niðurlag:
Eins og lesa má úr þessu ranti mínu ætti að vera ljóst að ég er ekki eins upprifin af Arnaldi og ég hef áður verið. Mér þykir hann kominn á hálan ís og hætt við falli ef hann langar að halda sigurför sinni áfram sem afburða glæpasagnahöfundur. Ég vona að fyrir næstu bókarskrif hristi kappinn rækilega upp í þessu, hendi sér út fyrir þægindahringinn og upplifi einhverskonar kaótík sem ræsir hanns innri skáldsagnameistara og örvar frumlegheitin.
Bókin fær þó tvær og hálfa stjörnu frá undirritaðri enda er maðurinn með formúluna og tæknina á tæru og ekki við því að amast.
[usr 2.5 text=”true” tooltip=”true”]Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.