Ég rakst á þennan forvitnilega texta sem við sjáum hér að ofan í bók sem heitir einfaldlega Heilsan.
Bókin, sem kom út árið 1980, inniheldur fjölbreytt skynsamleg ráð sem mörg hver eru orðin að almannavitund í dag, eins og t.d. að það er gott að borða mikið af grænmeti og fara alls ekki of geyst í mjólkurvöruneyslu eða kjötáti.
Það sem mér þótti samt merkilegast í bókinni er þessi einfalda leið til að meta hvað telst heilbrigt og eðlilegt í þyngdarmálum.
Stundum virðist mér sem nútímafólk sé farið að “kóa” heldur mikið með óheilbrigðri neyslu, réttlæta þyngdaraukningu og reyna að búa til “norm” úr því sem ekki var talið eðlilegt fyrir nokkrum árum, og því síður heilsusamlegt.
Og ef fólk “kóar” ekki með þessu þá eru öfgarnar oft í hina áttina. Æft sex sinnum í viku og mataræðið hundleiðinlegt. Þurrar kjúkligabringur og eitthvað duft í matinn þrisvar á dag. Í nafni heilsunnar.
Svo eru það týpurnar sem eru haldnar einhverskonar glútein og laktósalausri vegan heilsu-átröskun. Allt sem er ekki ræktað af hreinum sveinum 2000 metra yfir sjávarmáli í Bútan er mengað… eða þannig. Að minnsta kosti virkar þetta sem fyrstaheims vandamál af bestu gerð. Samt þarf þetta ekkert að vera svona flókið.
Lífið breytist og búkurinn með
Lítum um öxl. Árið 1980 var enginn “nammibar” í Hagkaup. Kóka kóla var munaðarvara og það bara bara boðið upp á gos í veislum.
Tíu eða fimmtán kíló sem bættust við skrokk á skömmum tíma flokkuðust ekki sem aukakíló heldur of mikið. Svo hreyfði fólk sig mikið meira. Það var oftast einn bíll á hvert heimili og það var gengið í búðina og skólann. Margir gengu í vinnuna.
Fólk hreyfði sig mikið meira í daglega lífinu og planaði matseðil út vikuna. Og gotterí og bakkelsi voru spari eða haft í miklu hófi. Ein sneið af jólaköku eða sandköku með kaffinu. Smá hjónabandssæla. Megrun kallaðist líka bara megrun en ekki “átak” eða “lífstílsbreyting” og konur sögðust ætla út að “ganga af sér spikið” af því þær voru jú í megrun. Engin tabú. Ekkert rugl.
Og þá er lag að spyrja sig: Getum við ekki bara haldið okkur við þennan einfaldleika?
Hreyfa sig reglulega, hvort sem er með göngu eða hjólatúr út í búð, dansi eða lóðalyftingum. Borða reglulega og hætta þessu sælgætis, rauðvíns og bjórsulli. Og svo er fínt að gleyma þessum; ég á börn, ég er fertug, ég hætti að reykja… skýringum á of miklu ummáli. Algengasta ástæða þess að fólk bætir á sig er einföld. Fólk borðar og drekkur of mikið af sætindum og brauðmeti. Borðar of lítið af grænmeti og fiski (etc). Þetta hefur alltaf verið svona.
Samkvæmt læknunum sem skrifuðu þessa ágætu Heilsu-bók þá átt þú átt alltaf að geta haldið sömu líkamsþyngd og þú hafðir 20-25 ára, svo lengi sem þú varst ekki of létt eða þung á þeim aldri. Það mun vera heilsusamlegast. Og ef aldurinn hægir á brennslunni þá er bara að borða örlítið minna.
Ertu með skoðun á þessu? Endilega kíktu við á Facebook síðunni okkar og leggðu orð í ‘belg’ 😉

Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Er hænuhaus. Hef thing fyrir Marilyn Monroe og svona sitthvað fleira.
35 comments
Heyr heyr, alveg sammála! 🙂
Ég las einhversstaðar að Audrey Hepburn hafi “strögglað” við átröskun á tímabili og auglýsingar sem höfðu hana sem heilbrigða fyrirmynd fengu mikla gagnrýni vegna þess.
Bara svona fróðleiksmoli 🙂
Annars er ég hjartanlega sammála þér!!
Á einhverjum tímapunkti verður fólk að ákveða hvernig það vill vera og vera svo ánægt með það að vera eins og það er. Hvort sem það er feitt eða mjótt.
Maður getur ekki alltaf verið að lifa eftir því sem “öðrum finnst” eða einhverjum stöðlum, sem eru í raun bara eitthvað sem einhverjum finnst.
Hverjum og einum verður að líða vel í eigin líkama og þeim lífsstíl sem hann hefur valið sér. Það er hægt að gera það hvort sem maður er mjór, meðalvaxinn eða feitur 😉
Já en…staðlarnir eru ekki “eitthvað sem einhverjum finnst” heldur miða þeir jú að góðri heilsu fólks. Læknum er slétt sama um útlit held ég.
Ég held að það eigi ekki að ýta undir svona fyrirsagnir. Bulemía eða bolemía og önnur átröskun er enn í fullu fjöri sérstaklega hjá ungum stúlkum. Miklu betra væri að leggja áherslu á hollan mat en ekki vera að tala um 3-4 kíló. Nýbúin að heyra um eina gullfallega stúlku, sem nú hefur verið lögð inn á stofnun, en hún sér sig greinilega fjórfalda í spegli.
Audrey Hepburn var hræðilega mjó að mínu áliti, óhuggulega mögur og ekki til fyrirmyndar fyrir ungar stúlkur. Þannig að ég er bara algjörlega ósammála þessum áróðri.
Þetta er ekki áróður Eva og Audrey var ekki “hryllilega mjó”. Hún var grönn og hélt sömu þyngd alla tíð, líka þegar hún var orðin gömul kona. Þessvegna er myndin af henni þarna.
Árið 1980 hefði ég giskað á að “anorexía” og “búlimía” væru þorp í Algeríu og þessir geðsjúkdómar hafa ekki mikið með málið að gera.
Jú annars…Öfgarnir felast líka í því að það er alltaf einhver sem fer að tala um átröskunarsjúkdóma þegar reynt er að benda á hvað er eðlilegt og óeðlilegt í þessum efnum.Þeir sem gera það, tilheyra oftast þeim hópi fólks sem hefur verið með þessa sjúkdóma eða þeim sem eru með 15 “aukakíló”. 😉
Audrey Hepburn varð ekki gömul kona. Hún dó úr krabbameini 64 ára gömul. Ég er sammála Evu, hún var hræðilega mjó, ég hefði miklar áhyggjur ef mín dóttir tæki hana holdafarslega til fyrirmyndar.
Og að hvetja til þess að fara að “vara sig” þegar þyngdin sveiflast 3-4 kíló upp fyrir hina opinberu “kjörþyngd”, finnst mér alveg út úr korti. Ég myndi henda þessarri bók í ruslið ef ég væri þú.
Járngerður: Stubbaknúúúússss! 😉
Alveg er hún óskiljanleg þessi fortíðardýrkun í sambandi við heilsuna. Staðreyndin er sú að við vorum mun óheilbrigðari sem þjóð fyrir 30 árum en við erum núna. Við reykjum minna, stundum meiri hreyfingu í frístundum og borðum hollari mat. Já, hollari mat. Meira af grænmeti og ávöxtum og minni fitu. Drekkum meira vatn. Þetta er ekkert leyndarmál og má sjá skýrt og greinlega í hinum ýmsu rannsóknum sem unnar hafa verið hér á landi. Við erum þyngri nú en áður en heilsufarslega erum við samt í betri málum. Fyrir 30 árum birtist t.d. eftirfarandi fyrirsögn í Morgunblaðinu: “Tíðni hjarta- og æðasjúkdóma fer vaxandi á Íslandi, meðan hún er á undanhaldi meðal annarra þjóða”. Síðan þá hefur þessi mikla ógn statt og stöðugt farið minnkandi. Tíðni kransæðastíflu hefur lækkað um meira en 50% á síðustu tveimur áratugum og dauðsföll vegna kranæðasjúkdóma hafa ekki verið færri síðan um miðja síðustu öld. Hverju þakka sérfræðingarnir þessa þróun? Sömu atriðum og nefnd voru hér að ofan: Betri lífsvenjum.
Afsakið mig dömur mínar, en þarna stendur einfaldlega að það sé ekki sniðugt að láta þyngdina fara mikið meira en 3-4 kg upp. Þá sé skynsamlegt að grípa í taumana. Eins er þarna bent á að það sé ekki óráðlegt að halda sömu þyngd og maður var í frá 20-25 ára, alla ævi.
Hvers vegna á ég að leggja mig fram um að verja það að ég taki undir þetta? Mér finnst skynsemin í þessu hreinlega blasa við.
Hmm?
Einmitt, sé ekkert að þessum orðum í bókinni. Ef maður var eitt sinn heilbrigður og í góðu formi þá er ekki gott að leyfa kílóunum að síga á sig í kyrrsetuvinnunni sinni. Finnst þetta bara vera fínt viðmið að líta á árin 20-25 ára, þ.e. ef anorexía eða annað var ekki að þjaka mann 🙂
Fín áminning, flestir eru einmitt i sínu besta formi i krngum 20-25 ára aldurinn, eftir þrítugt fer svo að hægja á brennslunni og þá er erfiðara að halda réttri þyngd, sem þýðir að maður þarf að fara borða hollar og hreyfa sig meira, það er bara gott. Mér finnst því miður vera afskaplega þreytandi þegar fólk er alltaf að réttlæta aukakíló, aukakíló eru ekki góð fyrir mann og ekki heldur flott og þannig er það bara, óþarfi að verja það eitthvað. Ég var einu sinni löt og át bakarísmat á hverjum degi í 2 ár og fitnaði um einhver 8 kíló, mér leið ekki vel svoleiðis, ég var þreyttari, önugri og óánægð með mig, en um leið og ég hætti daglegu sukki og hreyfði mig meira rann þetta af mér, það var ekkert eriðara en það, leið miklu betur og leit betur út, það þarf nefnilega ekki nema smá viðhorfbreytingu til að ná af sér kílóum, skyndikúrar eru bara bull, það er lífstílsbreyting sem dugar og hana er hægt að taka í hægum skrefum svo við getum frekar staðið okkur, og að þessum orðum sögðum þá sé ég að ég þarf að hætta daglegu sukki sem ég er dottin aftur í núna og fá mér bara nammidag um helgar;)
Langflest er satt og rétt sem ritað er þarna.
Ég er líka sammála þessu, það er bara kjánalegt að halda að maður fitni með aldrinum og það sé bara eins og það er.
Hinsvegar var Audrey Hepburn svona grönn vegna sjúkdóms sem hún fékk eftir að hún var föst í Hollandi í Evrópu Nasismans.
Góður pistill, og alveg hárrétt hjá þér Magga.
“ég er með offivirkan skjaldkirtil” eins og þú orðaðir það í pistlinum á við um fólk sem er of mjótt en ekki of feitt. Það er svo sannarlega gild afsökun og það þarf mikið meira en “hreyfa sig meira og borða hollt” til þess að halda sér í kjörþyngd með ofvirkann skjaldkirtil.
Skjaldkirtilsvandamál valda því að fólk er ýmist of þungt eða allt of létt. Brennslan fer öll í rugl. Margir sem borða kolvitlaust og hreyfa sig ekki neitt sjúkdómsgreina sjálfa sig með skjaldkirtilsvanda. Það er allt reynt 😉
Þessi viðmið sem gefin eru í greininni eru mjög undarleg. Þar er sagt að æskileg líkamsþyngd sé hæð manns í cm mínus 100 og mínus 10%. Þegar ég reikna þessi viðmið fyrir sjálfa mig fæ ég út þyngd sem samsvarar 20,5 í BMI, sem sagt, neðst í kjörþyngdarbilinu. Flestar rannsóknir sýna aukna dánartíðni við svo lágan þyngdarstuðul, t.d. sýndi allsherjargreining 20 rannsókna á tenglsum þyngdar og dánartíðni að bestu afkomulíkur voru meðal þeirra sem höfðu þyngdarstuðul á bilinu 24-27. Þeir sem höfðu BMI 19-20 höfðu sömu dánarlíkur og þeir sem voru með 29-30 í BMI, sem er við offitumörk.
Hvað segir ykkur að þessi þyngd (hæð – 100 – 10%) sé sú besta? Hvaðan eru þessi viðmið fengin? Það er alls ekki víst að þarna búi sterk vísindi að baki þótt einhver læknir hafi skrifað þetta fyrir 30 árum. Reyndar er það harla ólíklegt þar sem flest af því sem þótti sjálfsögð praktík fyrir 30-40 árum í sambandi við þyngdarstjórnun var í raun alveg banalt. Á þessum tíma lifðu öfgakenndir megrunarkúrar góðu lífi og svelti (undir eftirliti læknis) var meðal ráðlagðrar meðferðar við offitu. Þeirri “meðferð” var síðan hætt þegar sjúklingar tóku upp á því að deyja fyrirvaralaust og leiddu krufningar í ljós rýrnun á hjartavöðva.
Líklega er þessi skrýtna “jafna æskilegrar þyngdar” fengin úr Metropolitan Life þyngdartöflunum sem byggðu á gögnum frá bandarískum tryggingafélögum. Þær voru gagnrýndar fyrir að taka ekki tillit til aldurs og var lagt til við endurskoðun árið 1985 að þeim yrði breytt þannig að gert væri ráð ráð fyrir einhverri þyngdaraukningu með aldrinum. Þekkt rannsókn, sem byggir á gögnum frá bæði Bandaríkjunum og Evrópu, sýndi einmitt að þeir sem þyngdust hóflega með árunum lifðu lengur en þeir sem héldu sömu þyngd út ævina. Dánartíðni var hins vegar hæst hjá þeim sem annað hvort þyngdust mikið eða grenntust með árunum.
Og? Ég er 1.58 og ef ég dreg 110 frá þá enda ég í 48-52 kg. Það smellpassar og ég er 100% sátt við mig á þessu 4 kg bili svo formúlan svínvirkar fyrir mig… og eiginlega allar aðrar sem ég þekki. Nema þessar stórbeinóttu.
Ég er heilbrigð. Hreyfi mig þrisvar í viku og geng alltaf í vinnuna. Ég er 168 og 80 kíló. Ég borða hollt og í hæfilegu magni. Ég er búin að vera svipuð alla mína ævi og verð fimmtug núna á laugardaginn. Ég vil hins vegar taka það fram að ég er alls ekki feit, heldur er ég bara ósköp venjuleg og hef alla tíð verið með rass, brjóst og læri. Þegar ég fór í skoðun hjá lækni vigtaði hann mig og ég spurði hann hvort ég væri of þung og hann sagði að ég væri bara fín og að þetta væri eðlilegt, ég væri með svona líkamsgerð. Ég er ekki hrifinn af svona tilbúnum formúlum varðandi þyngd vegna þess að hún er ofboðslega persónubundin. Ég til dæmis kunnigja sem hefur sveiflast á milli 40-48 kíló allt sitt líf og ég myndi giska á að hún væri um 155-160. Hún er einnig fullkomnlega eðlileg. Ég er sammála því að við ættum að fara “back to basics” en ég vil líka taka það fram að á þessu árum vissu flest okkar til dæmis ekki hvað eggaldin, púrrulaukur, piparrót, eða kúrbítur var! En þá borðaði landinn minna og fiskur var mun algengari á borðum. Auk þess voru skammtar mun minni. Ég hugsa oft til þess ef ég kaupi pítsusneið fyrir börnin að þegar við vinkonurnar keyptum okkur pítsusneiðar þegar við vorum ungar voru þær helmingi minni og kókið líka!
Margrét: Þú reiknar þetta ekki alveg rétt 🙂 Fyrst á áttu að mínusa 100 frá hæðinni þinni og svo taka 10% af tölunni sem stendur eftir. Þannig að ef kona er 158 cm þá á hún samkvæmt þessari formúlu að vera uþb. 52.2 kg.
Já Helga… þetta er svona röff estimeit hjá mér að draga 110 frá en gettu hvað… ég er einmitt, upp á gramm, 52,2 kg!! :)) Mergjað.
Og Guðrún, jú, auðvitað eru allir misjafnir – það má ekki öðruvísi vera, en í þessum flókna heimi er vissulega gott að hafa einhver einföld viðmið sem hægt er að horfa til.
Pistillinn fjallar jú líka um hvað þetta er allt ýmist í ökkla eða eyra. Annað hvort er rúllað um á vömbinni eða þú verður að hafa helköttaðann sixpakk og ekkert minna! Borða dill og hör af því restin er svo “hættuleg” og toxic.
Mér finnst fínt að miða bara við þessa þyngd á milli 20-25 ára. Ég er talsvert eldri núna og enn á sama 4 kílóa bilinu frá 48-52. Þetta passar fullkomlega og ég held að ég verði enn svona um sextugt.
…og ps. ég æfi 3svar í viku 😉
Margrét mér finnst þú afgreiða ummæli Sigrúnar á barnalegan hátt. Þú talar sjálf um í pistlinum þínum að þessi viðmið snúist um hollustu og hún er að benda þér á að rannsóknir styðja hollustu BMI sem er ívið hærri. Svar þitt, Og?…. virðist frekar barnalegt.
Ef hollustan er ekki það sem vakir fyrir þér er það þá kannski frekar að þér finnst fólk sem þú skilgreinir sem “feitt” sem er orðið 10 eða 15 kg yfir þínum viðmiðum, bara einfaldlega ljótt?
Miðað við rannsóknir sem styðja að heilbrigði felist í BMI á bilinu ca 21-27, hvaða ástæðu hefur þú til að gagnrýna fólk sem er ofar frekar en neðar á þessu bili?
Steinunn: Þú ert kannski að túlka það sem ég skrifa á rangan máta ef niðurstaðan er sú að ég sé, með þessari færslu, að gagnrýna fólk sem er ofarlega á BMI skalanum? Ég held það 😉
Já, Margrét ekki tekst mér að túlka það öðruvísi?
“Mér finnst nefninlega hálfpartinn eins og fólk sé farið að kóa með óheilbrigðri neyslu, réttlæta þyngdaraukningu og reyna að gera „norm“ úr því sem var ekki normal fyrir nokkrum árum.”
“Árið 1980 var enginn „nammibar“ í Hagkaup. Kók var spari og bara í veislum. 10 kíló flokkuðust ekki sem „auka“ heldur fita og það var oftast einn bíll á hvert heimili sem varð til þess að fólk gekk á milli staða.”
“Og? Ég er 1.58 og ef ég dreg 110 frá þá enda ég í 48-52 kg. Það smellpassar og ég er 100% sátt við mig á þessu 4 kg bili svo formúlan svínvirkar fyrir mig… og eiginlega allar aðrar sem ég þekki. Nema þessar stórbeinóttu”
kona sem er 1.58 er þyngri en 52 kg þá… er það ok svo lengi sem hún er stórbeinótt? Ef hún er ekki stórbeinótt þá eru þessi 10kg hvað? ekki “auka” heldur fita.
Greinin lest svolítið þannig að viðmiðið 100-líkamshæð-10% sé það sem í gamla daga kallaðist normal og því miður í dag köllum við 10 kg ofan á það “auka” þegar þau ættu að kallast fita, en Sigrún bendir á að með slíka útreikninga ertu ekki endilega í hollasta flokknum svo að það sem kallaðist Normal þá er ekki endilega besta viðmiðið um hvað sé eða ætti að vera normal.
Formúla svínvirkar fyrir þig væntanlega af því hún skilar þér á það þyngdarbil sem þér finnst þú flott í, en það er ekki það sama og að segja að það sé bilið sem aðrar konur eigi að stefna að (þrátt fyrir að vinkonur þínar geri það), vegna þess að þetta bil er ekki hollasta bilið. Þá stendur eftir að segja frekar: mér finnst fólk fallegast á þessu bili eða hvað?
Flottur pistill Margrét.
Anorexía og Búlimía eru að verða svo mikið issjú, að þeir sem eru frá sirka 10 kg of feitir og uppúr, eru farnir að skýla sér á bak við það..
Ímyndin “venjuleg kona” hefur tekið stórkostlegum breytingum á síðustu árum, og það sem taldist venjulegt fyrir nokkrum árum er kallað of grannt núna.
Það er eins og sumt fólk reyni að sannfæra sjálft sig að það sé ekki feitt, heldur þessir grennri séu bara alltof grannir!
Til að fyrirbyggja allann misskilning er ég ekki að meina að scary skinny súpermódel séu venjulegar konur.
Ég bara verð að kommenta á þetta ég er svo hneyksluð, í fyrsta lagi finnst mér framkoma flestra hérna gagnvart búlemíu og anorexiu vera alveg hreint ótrúleg. Stelpur með búlemíu og anorexiu eru ekki alltaf þvengmjóar, þessir sjúkdómar valda gríðarlegum sveiflum í vaxtarlagi stúlkna því það er gríðarlega erfitt að halda sjúkdómnum í skefjum eftir að hafa náð sér á ról einu sinni.
Það hefur mörgum sinnum sannast að þyngdin er heldur ekki það sem skiptir máli og enganvegin það sem á að miða við þegar heilbrigði er skoðað. Stelpur geta verið mjög léttar en gríðarlega óheilbrigðar og er ég lifandi sönnun þess.
Aftur á móti þyngdist ég allsvakalega þegar ég byrjaði að borða heilbrigt og hreyfa mig. Núna er ég heilum 15 kílóum yfir því sem þið kallið “eðlilegt og flott” og aldrei nokkurntíman mundi ég kalla sjálfa mig í yfirvigt eða feita. Þessi grein hjá þér er fáránleg, ég hef sjaldan verið jafn móðguð.
Og ég óska þess að verða ekki í sömu þyngd þegar ég verð gömul, mig langar ekkert vera svona mjó þegar ég verð gömul kona, það er ekki fallegt og einnig hefur það komið í ljós í rannsóknum að gamalt fólk sem er með aðeins meira utaná sér lifir lengur og heilbrigðara lífi.
Margrét, einnig vil ég benda þér á að það er mjög mikið af ungum stelpum sem lesa greinarnar hérna inná, síðast þegar ég vissi þurftu þær einmitt ekki á því að halda að einhver væri að impra enn frekar á þessu bulli um þyngd. Þyngd er ekki eitthvað sem stelpur eiga að einblína á heldur líkamsform og andleg líðan, hreyfing og hollt matarræði. 3-4 kíló segja ekki neitt um heilbrigði.
Einnig finnst mér ótrúlegt hvað svörin þín eru barnaleg, ég fór alvarlega að hugsa um á hvaða aldri þú sért? Hver svarar fínum rökum með “Og?”. Allavega ekki fullorðin, þroskuð manneskja. Og það er enginn að segja að það séu ekki til stelpur sem eru fullkomlega heilbrigðar þrátt fyrir að vera mjög grannar, það eru bara líka til stelpur sem eru mjög þungar en samt fullkomlega heilbrigðar.
Glæsileg grein!
Fólk á ekkert að nota aldurinn sem einhverja afsökun til bæta á sig kílóum!
Bara hætta þessari leti og sukki og einnig er líka mjög mikilvægt að hætta líka í afneitnun 😉
Kæru þið, Maður þarf ekki að vera einmitt það sem þessi 100 mínus hæð og það en ég sá nílega svona plakat sem stóð að maður ætti að mínusa 90 af hæðæ sinni og það væri meðalþyngd en meðal þyngd þýðir bara að maður eigi ekki að vera alveg 100% sem stendur heldur getur verið 1-5 yfir og það er allt í lagi en núna kemur besta ráðið “Vertu bara eins og þú vilt því þá ertu þú sjálf,,
Er ekki bara málið að gleyma þessu gamla og halda sig við nútíman og reikna BMI-ið sitt í reiknivélum á netinu…
Þessi grein er algjörlega fáránleg, og kommentin toppa hana í fáránleika!
Æi skvísur.
Þetta kallar maður Much ado about nothing 😉 Inn með nefinu og út um munninn.
Nothing tastes as good as skinny feels?
Ég er hjartanlega sammála henni Sonju hér fyrir ofan.
Gott að vita af því “járngerður”.
Lokað fyrir athugasemdir.