Ég rakst á þennan forvitnilega texta sem við sjáum hér að ofan í bók sem heitir einfaldlega Heilsan.
Bókin, sem kom út árið 1980, inniheldur fjölbreytt skynsamleg ráð sem mörg hver eru orðin að almannavitund í dag, eins og t.d. að það er gott að borða mikið af grænmeti og fara alls ekki of geyst í mjólkurvöruneyslu eða kjötáti.
Það sem mér þótti samt merkilegast í bókinni er þessi einfalda leið til að meta hvað telst heilbrigt og eðlilegt í þyngdarmálum.
Stundum virðist mér sem nútímafólk sé farið að “kóa” heldur mikið með óheilbrigðri neyslu, réttlæta þyngdaraukningu og reyna að búa til “norm” úr því sem ekki var talið eðlilegt fyrir nokkrum árum, og því síður heilsusamlegt.
Og ef fólk “kóar” ekki með þessu þá eru öfgarnar oft í hina áttina. Æft sex sinnum í viku og mataræðið hundleiðinlegt. Þurrar kjúkligabringur og eitthvað duft í matinn þrisvar á dag. Í nafni heilsunnar.
Svo eru það týpurnar sem eru haldnar einhverskonar glútein og laktósalausri vegan heilsu-átröskun. Allt sem er ekki ræktað af hreinum sveinum 2000 metra yfir sjávarmáli í Bútan er mengað… eða þannig. Að minnsta kosti virkar þetta sem fyrstaheims vandamál af bestu gerð. Samt þarf þetta ekkert að vera svona flókið.
Lífið breytist og búkurinn með
Lítum um öxl. Árið 1980 var enginn “nammibar” í Hagkaup. Kóka kóla var munaðarvara og það bara bara boðið upp á gos í veislum.
Tíu eða fimmtán kíló sem bættust við skrokk á skömmum tíma flokkuðust ekki sem aukakíló heldur of mikið. Svo hreyfði fólk sig mikið meira. Það var oftast einn bíll á hvert heimili og það var gengið í búðina og skólann. Margir gengu í vinnuna.
Fólk hreyfði sig mikið meira í daglega lífinu og planaði matseðil út vikuna. Og gotterí og bakkelsi voru spari eða haft í miklu hófi. Ein sneið af jólaköku eða sandköku með kaffinu. Smá hjónabandssæla. Megrun kallaðist líka bara megrun en ekki “átak” eða “lífstílsbreyting” og konur sögðust ætla út að “ganga af sér spikið” af því þær voru jú í megrun. Engin tabú. Ekkert rugl.
Og þá er lag að spyrja sig: Getum við ekki bara haldið okkur við þennan einfaldleika?
Hreyfa sig reglulega, hvort sem er með göngu eða hjólatúr út í búð, dansi eða lóðalyftingum. Borða reglulega og hætta þessu sælgætis, rauðvíns og bjórsulli. Og svo er fínt að gleyma þessum; ég á börn, ég er fertug, ég hætti að reykja… skýringum á of miklu ummáli. Algengasta ástæða þess að fólk bætir á sig er einföld. Fólk borðar og drekkur of mikið af sætindum og brauðmeti. Borðar of lítið af grænmeti og fiski (etc). Þetta hefur alltaf verið svona.
Samkvæmt læknunum sem skrifuðu þessa ágætu Heilsu-bók þá átt þú átt alltaf að geta haldið sömu líkamsþyngd og þú hafðir 20-25 ára, svo lengi sem þú varst ekki of létt eða þung á þeim aldri. Það mun vera heilsusamlegast. Og ef aldurinn hægir á brennslunni þá er bara að borða örlítið minna.
Ertu með skoðun á þessu? Endilega kíktu við á Facebook síðunni okkar og leggðu orð í ‘belg’ 😉
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.