Vinkona mín, sem býr í Hollywood í Los Angeles, á litla stelpu sem gengur í leikskóla. Þar á hún fjölbreyttan vinahóp en meðal vina hennar er strákur sem er sonur tveggja karlmanna.
Pabbarnir tveir fengu semsagt konu, staðgöngumóður, til að ganga með væntanlegan erfingja þeirra og sá stutti kom í heiminn með enga mömmu en tvo pabba, – eða þar til sá dagur rann upp að hann sagði vinkonu sinni stoltur að nú ætti hann ekki lengur tvo pabba heldur FJÓRA!
Hvernig má það vera? Jú, einfalt. Pabbarnir tveir hættu saman og fengu sér fljótlega nýja menn. Ergo, sá stutti eignaðist allt í allt fjóra pabba.
Jólaþjáningar 2014
Undanfarið hef ég haft sérstaklega mikinn áhuga á að fylgjast með því hvernig hinar ýmsu hefðir koma í veg fyrir að okkur nútímafólkinu líði vel.
Þetta má til dæmis auðveldlega greina yfir jólahátíðina þegar fjöldi fólks reynir að fá jólakerfið: “aðfangadagur-allt hreint-bað-spariföt-borða rjúpuhangikjöthamborgarhrygg kl 18:00-vaska upp-lesa jólakort-allir opna pakka-fara í náttföt-vaka lengi-lesa eða spila-fara að sofa í hreinum rúmfötum með nýja bók” ….
…passa við það fyrirkomulag sem er á lífinu þetta árið með tilheyrandi þjáningu ef það sem þú átt er ekki lengur “venjuleg” fjölskylda.
Þá á ég við, ef þín fjölskylda er kannski bara:
1. Þú sjálf/ur, án maka, orðin miðaldra og fráskilin/n.
2. Þú sjálf/ur, ekki genginn út og enn í mat hjá mömmu og/eða pabba/stjúppabba/mömmu.
3. Þú hjá mömmu þinni og börnin þín hjá pabba sínum.
4. Þú hjá pabba þínum og börnin þín hjá mömmu sinni.
5. Þú hjá mömmu þinni og makinn þinn með sínum/sinni fyrrverandi “barnanna vegna”…
6… 7….8
…og svo framvegis. Þetta er auðvitað ein allsherjar jólasteik!
Opna pakkana á jóladag
Sjálf á ég eina frábæra stelpu en við pabbi hennar skildum þegar hún var innan við eins árs. Hann er sjálfur giftur og stelpan mín á bræður pabba síns megin.
Þar sem ég hef ekki farið í sambúð frá því hún fæddist, og jólin eru mikil barnahátíð, hef ég yfirleitt kosið að leyfa henni að njóta aðfangadags með hinni famelíunni og svo hef ég haldið “aðfangadagskvöld” með henni og öðrum nákomnum, ýmist fyrir 24. des eða eftir, allt eftir hentugleika.
Í ár gerðum við smá breytingu og opnuðum pakkana á hádegi á jóladag að amerískum sið. Hún var mjög sátt við það. Svo horfðum við á Forrest Gump (sem bjó einmitt einn með mömmu sinni líka).
Mér þætti nefninlega hálf absúrd að sitja, hefðarinnar vegna (og af því það eru “mín jól”), með stelpunni minni kl 20:00 á aðfangadag, opna pakka og japla á laufabrauði með kór Langholtskirkju jarmandi á RÚV á meðan bræður hennar, og fleira fólk sem henni þykir vænt um, væru í öðru húsi í borginni að opna sína pakka. Tveir eru ekki partý og krökkum finnst gaman að vera með öðrum krökkum í þessu stuði.
Með öðrum orðum; mér finnst það öllu skipta að vera sveigjanleg yfir jólin og láta gleðina yfir góðum samverustundum ofar því nákvæmlega klukkan hvað eða hvaða dag hlutirnir gerast. Við eigum að hafa gaman af jólunum og hefðunum í kringum þau, – ekki láta þær þjaka okkur.
Það er ekki lengur árið 1975. Flestir sem eru komnir yfir 35 árin eiga börn úr fyrri samböndum, eru ekki í samböndum og þar fram eftir götunum.
Við erum allskonar og rúmlega það. Ósamstæð bollastell eru normið. Bollar brotna. Eru límdir saman aftur. Sumir safna meira að segja ekki stellum.
Normið árið 1975 er frávik árið 2014
“Venjuleg fjölskylda” er ekki lengur par með tvö til fimm börn, útivinnandi karl og heimavinnandi kona sem tekur allann desember í að þrífa, baka endalausar sortir, hengja upp jólagardínur, kaupa gjafir og skrifa kort.
Alls ekki.
Ef þið eruð sú sjaldgæfa tegund sem eigið engin börn úr fyrri samböndum og búið með afkvæmum ykkar í sama húsi þá eruð þið eflaust bæði útivinnandi, og desember fer í að finna pössun fyrir krakkana af því það er svo mikið djammað og sullað í sortanum.
Þetta eru, eins og Bubbi söng forðum, breyttir tímar.
Það er ekki lengur tabú að vera einstæð móðir. Getnaðarvarnir eru normið og eini valkostur okkar eftir skilnað er ekki að gerast ráðskona hjá karli úti í sveit. Þessvegna samræmast hefðir “vísitölufjölskyldunnar” sjaldnast þörfum nútímakvenna og karla.
Þegar hefðir eru farnar að vera okkur þjáning, af því þær eru úr sér gengnar, er tímabært að stokka bara rækilega upp í kerfinu.
Þú mátt samt ekki skilja þetta sem svo að ég hafi eitthvað á móti jólahefðum eða hefðum almennt. Málið er bara, að þegar hefðirnar skapa frekar vandamál en gleði og góða strauma þá er betra að gefa þær upp á bátinn. Og oft vill þetta æxlast þannig að lífsstíllinn breytist en hefðirnar ekki fyrr en löngu, löngu seinna.
Að mínu mati er okkur hollast að uppfæra andlegu forritin okkar um leið og nýjar uppfærslur eru fáanlegar.
Það getur nefninlega komið illa út að vera með gamalt stýrikerfi sem tekur ekki við nýjum forritum. Skilurru?
Nokia 6610 er til dæmis ekki með Facebook appi og þú kemur því ekki í þannig síma. Það er ekki hægt að setja öpp í gamla Noka síma. Að sama skapi er óþarfi að reyna að troða jólahefðum síðan 1955-85 inn í árið 2014. Skilurru?
Jólaknús!
Hefurðu gaman af pistlunum okkar á Pjatt.is? Finndu okkur á Facebook, hakaðu við Like puttann og smelltu á “Get Notifications” – Þá missirðu ekki af neinu 😉
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.