Nú er daman sem sagt komin á dansgólfið og gamall draumur loks orðinn að veruleika -því hver vill ekki kunna að hreyfa sig rétt og hafa fallegan líkamsburð?
Eiginlega hafði mér ekki dottið í hug að fara á balletnámskeið fyrr, hélt ég væri of „stór“ til þess að innritast en síðan sá ég auglýst námskeið fyrir byrjendur hjá Klassíska Listdansskólanum og ákvað að prófa.
Ballettinn hefur komið á óvart og ég missi ekki úr tíma. Konan sem áður lá iðin við sjónvarpsgláp uppi í sófa í lok vinnudagsins, teygir sig nú og sperrir á dansgólfinu eins og hún á líf sitt að leysa. „Vertu bein í baki, berðu höfuðið hátt, líkt og það sé þráður upp úr þér sem togar þig upp til himins!!“ segir kennarinn og orð hans hljóma sem tónlist í eyrunum.
Kennarinn er breskur en nær allir kennararnir eru af erlendu bergi brotnir og eru með stutt námskeið við skólann. Því skapast þarna skemmtilega alþjóðlegt andrúmsloft, sem ég elska.
Ballet er um leið frábær leið til að bæta líkamsstöðu sína og verða flottari. Fyrir nú utan hvað dansinn veitir mikla útrás líkamlega og andlega. Það er eins og þungi dagsins renni af þér í svitanum sem perlar á líkamanum.
Þessar æfingar eru nefnilega mjög erfiðar, það að lyfta fótleggnum fallega fram og draga rétt eftir gólfinu tekur lygilega mikið á. Það skemmtilegasta er samt að læra meira í dag en í gær og hafa eiginlega lagt hælaskónum á hilluna. Já, málið er að rétta úr sér eins og ballerína til að krækja í þessa aukasentimetra sem leynast í þér kona! Kíktu á heimasíðu Klassíska Listdansskólans, hann tekur vel á móti þér: www.ballet.is
Þá er góð mynd á leið í bíó núna þar sem Kate Hudson, Penelope Cruz og Daniel Day Lewis stíga létt dansspor. Greinilegt að dansinn er nýjasta æðið hjá stjörnunum úti!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.