Nú er hápunktur steingeitarinnar (22. desember – 19. janúar) en á þessum tíma er nóttin jafnframt lengst og dagurinn stystur, tími uppbyggingar og nýs upphafs.
Það er kannski ekki skrítið að það sé hefð fyrir því að strengja áramótaheit á þessum tíma árs því það verða ákveðin kaflaskil þegar birtan fer smám saman að aukast og taka við af vetrarmyrkrinu.
Þetta hefur þau áhrif á steingeitina að hún er gjarnan frumkvæð og hefur þörf fyrir að vera drifkraftur hagnýtra verkefna, skipuleggja og koma hugmyndum í verk.
Steingeitin er mjög raunsæ, býr yfir miklum sjálfsaga, er útsjónarsöm, virðuleg, vægðarlaus, ábyrg og ákaflega afkastamikil. Hún er aftur á móti íhaldssamur vinnualki sem á það til að vera bæði smeyk og kúguð. Þar sem henni er illa við að missa stjórn á skapi sínu og reynir stundum allt hvað hún getur til að halda aftur af sér hættir henni til að vera bæld.
KANN AÐ META NOTAGILDIÐ
Það sem er svo skemmtilegt við steingeitina er að þrátt fyrir að hún kunni vel að meta lúxus er líklegt að heimili hennar sé ekkert sérlega glæsilegt. Henni finnst t.d. gæði hluta og verð ekki endilega fara saman. Notagildi hluta virkar í hennar augum sem ákveðinn lúxus. Hún myndi miklu frekar vilja eiga gamalt túbusjónvarp sem virkar heldur en rándýran flatskjá sem ætti það til að bila. Ekkert kjaftæði.
HVAR VÆRI VINNUMARKAÐURINN ÁN STEINGEITARINNAR?
Við skulum vona að aldrei reyni á það þar sem hún heldur sennilega flestum atvinnugreinum í heiminum gangandi. Leiðtogahæfni er steingeitinni mjög eðlislæg sem er gott fyrir hana því hún er gífurlega metnaðargjörn og metur líf sitt út frá þjóðfélagslegri stöðu. Það er því ekki skrítið að hún sæki í að vinna á stjórnmálalegum vettvangi og sérstaklega í þau störf sem unnin eru á bak við tjöldin þar sem skipulagshæfileikar hennar fá að njóta sín. Bankastarfsemi á vel við hana og eignaþróun. Hún myndi einnig una sér vel sem arkitekt, byggingaverkfræðingur, sagnfræðingur eða jafnvel fornleifafræðingur.
PENINGAR OG VÖLD – JÁ TAKK
Þó að valdastaða sé henni mjög mikilvæg gefur hún peningum ekki eins mikinn gaum. Það sem heldur henni gangandi er klifrið upp metorðastigann og eftir því sem staða hennar er betri þeim mun meiri orku býr hún yfir. Þar sem peningar og völd eiga það til að fylgjast að er steingeitin yfirleitt fjárhagslega vel stödd. Önnur ástæða fyrir velgengni í penigamálunum gæti líka verið sú að steingeitin tekur ekki ákvarðanir nema að vel ígrunduðu máli og því eiga hugmyndir um skyndigróða ekki vel við hana.
Steingeit, ef þú myndir aftur á móti vilja styrkja fjárhagslega stöðu þína enn frekar vil ég benda þér á að gera eitthvað af þessu:
Hættu að hafa áhyggjur!
- Þú ferð ekki á hausinn þótt að jólatréð þetta árið sé í dýrari kantinum, þetta mun allt fara vel.
- Ekki hika við að rukka fyrir fjárhagslega ráðgjöf.
- Skrifaðu metsölubók um kynlíf (slakaðu á, þú skrifar hana auðvitað undir dulnefni).
BÝÐUR VIÐ VÆMINNI RÓMANTÍK
Varnfærnislegt eðli steingeitarinnar nær hæstu hæðum þegar ástarmálin eru annars vegar. Þess vegna þegar vinna á hjarta hennar er gott að gera sér grein fyrir því að það mun sennilega taka dágóðan tíma. Þið eruð ekki að fara að flýta fyrir með blygðunarlausu daðri og fyrir alla muni reynið að draga úr allri væmni, steingeitinni býður við væminni rómantík. Til að ganga í augun á steingeitinni skemmir heldur ekki fyrir ef þið eruð flott og óaðfinnanleg í framkomu.
PS. Það er réttast að taka það fram að þegar stjörnumerki eru skoðuð þá er það ekki bara sólarmerkið (það merki sem tilheyrir afmælisdegi okkar) sem hefur áhrif á persónuleikann heldur líka önnur merki, sem dæmi þá er ég með sól í fiskum en er á sama tíma rísandi bogmaður. Tvö ólík merki, vatn og eldur. Sumum finnst þeirra merki ekki vera lýsandi fyrir sína persónu. Ein af ástæðum þess er að við stjórnumst af mismunandi merkjum eftir því hvenær og hvar við fæddumst.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.