Nýlega var mér bent á að margir sporðdrekar séu mjög stoltir af því að vera í sínu stjörnumerki. Til dæmis eru til sporðdrekar sem setja upp sporðdrekastyttur heima hjá sér, sumir sporðdrekar láta tattúvera sporðdreka eða tákn sporðdrekans á sig eða ganga með sporðdrekaskart; hálsmen og hringa. Þeim finnst kúl að vera sporðdrekar og það er kannski ekkert skrítið.
„Ef fiskurinn er iðandi lækur þá er sporðdrekinn lyngt og djúpt stöðuvatn.“
Það má nota þessa myndlíkingu fyrir sporðdrekann vegna þess að hann er almennt ekki bara fluggáfaður, heldur leggur hann raunverulega merkingu í það sem hann segir.
Ég hef nefnilega tekið sérstaklega eftir því að það sem kemur upp úr sporðdrekanum er sjaldan eða aldrei eitthvað kjaftæði. Þess vegna getur verið ótrúlega gaman að ræða við sporðdrekann um lífsins gang. Það er ekki ólíklegt að hann komi fram með einhverjar heimspekilegar pælingar sem að hann er búinn að liggja á í góðan tíma og stúdera.
Þú þekkir sporðdrekann á stingandi augnaráðinu og ákveðninni. Úff .. augnaráðið eitt og sér gæti stjórnað heilum her. Sporðdrekinn á það til að vera heldur ónærgætinn vegna þess að hann er svo hreinskilinn, hann er ekkert að skafa af hlutunum. Þá er hann líka skapbráður og gagnrýninn á sjálfan sig.
Dularfullur og tortrygginn – Hvað er hann að fela og af hverju liggja allir aðrir undir grun??
Besti vinur minn er sporðdreki og hef ég lengi vel reynt að stúdera og greina hann vegna þess að sporðdrekar eru svo fjári dularfullir!! Svo komst ég að því í dag að það fer víst alveg óheyrilega mikið í taugarnar á sporðdrekum þegar fólk reynir að lesa hugsanir þeirra og kortleggja þá.
Það sem mér finnst ótrúlega fyndið við sporðdrekann er hversu tortrygginn hann getur verið. Á meðan sumir leyfa fólki að njóta vafans þá liggja allir undir grun hjá sporðdrekanum.
Fólki er ekki treyst fyrr en það hefur sannað sig og biddu fyrir þér ef þú særir ástvin hans, þó ekki sé nema í eitt skipti og það þarf ekki einu sinni að vera eitthvað stórvæglegt. Í augum sporðdrekans ertu ekki lengur til. Þetta er búið og þú munt ALDREI komast aftur að honum.
Lok, lok og læs og allt í stáli.
Ástin er ekkert án losta og tilfinningahita
Af því að sporðdrekinn er svo dularfullur þá gætir þú allt eins haldið að hann hati þig þegar raunin er sú að hann er að deyja úr ást. Ást án átaka er ekki sönn ást í augum sporðdrekans, hann vill mikinn losta og tilfinningahita.
Karlmenn í sporðdrekamerkinu hafa dulúðlegt og munúðarlegt yfirbragð og geta virst frekar hættulegir í sjón. Þeir eru líka stjórnsamir og verða auðveldlega afbrýðisamir.
Þekktir fyrir stáltaugar og sterkt ónæmiskerfi
Það bítur nánast ekkert á sporðdrekann; þeir verða sjaldan veikir, eru þekktir fyrir stáltaugar, þrautseigju og ósérhlífni. Það sem gerir sporðdrekann áhugaverðan í þessu sambandi er að þrátt fyrir þetta hrjúfa yfirbragð er hann gjörsamlega berskjaldaður um leið og hann verður ástfanginn. Það er mjög líklegt að sporðdrekinn lendi allavega í einni djúpri og hrikalegri ástarsorg um ævina sem tekur hann langan tíma að jafna sig á.
FRÆGIR SPORÐDREKAR
PS. Það er rétt að taka fram að þegar stjörnumerki eru skoðuð þá er það ekki bara sólarmerkið (það merki sem tilheyrir afmælisdegi okkar) sem hefur áhrif á persónuleikann heldur líka önnur merki, sem dæmi þá er pistlahöfundur með sól í fiskum en á sama tíma rísandi bogmaður. Tvö ólík merki, vatn og eldur. Sumum finnst þeirra merki ekki vera lýsandi fyrir sína persónu. Ein af ástæðum þess er að við stjórnumst af mismunandi merkjum eftir því hvenær og hvar við fæddumst.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.