Meyjur (23. ágúst – 22. september) eru ekkert mikið fyrir að trana sér fram og eflaust eru einhverjar meyjur sem eiga erfitt með að ég sé að fjalla um þær hérna á opinberum vettvangi.
Það ætla ég samt sem áður að gera vegna þess að það verður hreinlega að vekja athygli á þessu yndislega, heiðarlega, hógværa, fórnfúsa fólki með þetta einstaklega góða hjartalag.
Ég rakst á alveg ótrúlega skemmtilega og viðeigandi lýsingu á meyjunni sem ég er handviss um að margir geti tengt við:
„Meyjan horfir á veröldina í gegnum gleraugu sem eru langt frá því að vera rósrauð. Allur ófullkomleiki er henni mjög vel sýnilegur og henni finnst næstum líkamlega sársaukafullt að þola hann.“
Ekkert merki er fært um að greina og koma auga á minnstu smáatriði jafn vel og meyjan.
Ráðagóð og skilvirk
Hún er ALLTAF í hlutverki gagnrýnandans og spyr gjarnan spurninga á borð við: Af hverju er þetta svona? Væri ekki mun betra að gera þetta svona? og á það til að segja hluti eins og – það er miklu betra að rista brauðsneiðina á 3 en ekki 5 og þvotturinn þornar fyrr ef þú hengir hann upp svona.
Meyjan hefur sem sagt mikla þörf fyrir að allt sé gert á sem skilvirkastan máta og skilur ekkert í öðru fólki sem gæti ekki verið meira sama.
Meyjan er alltaf að reyna að bæta sjálfa sig sem er auðvitað mjög jákvætt en þessi árátta að vera alltaf að leitast eftir fullkomnun getur leitt til niðurrifs; að hún verði of sjálfsgagnrýnin og of hörð við sig.
Yfirmáta snyrtilegt fólk
Þú þekkir meyju á því hversu yfirmáta snyrtileg hún er. Hafið þið ekki heyrt af fólkinu sem þrífur baðherbergið sitt með eyrnapinna og tannbursta? Já, það eru meyjurnar. En athugið, það getur vel verið að heimilið yfir höfuð sé eins og meyjan gæti kallað það skipulagt kaos en ef þú opnar sokkaskúffuna þá er þar allt í röð og reglu, sokkar litaraðaðir, brotnir saman á ákveðinn hátt, jafnvel straujaðir (ég þekki meyju sem straujar handklæðin sín). Þetta stafar af því að meyjan er svo smámunasöm að hún gleymir heildarmyndinni, missir sig í einhverju smáatriði þannig að ekkert annað kemst að því sokkaskúffan er aldrei nógu fullkomin.
Fann hún upp klukkuna?
Ég gæti trúað að Egyptinn sem fann upp skuggaklukkuna hafi verið meyja. Það er ekki hægt að finna stundvísara fólk og ef að meyja segist ætla að mæta eitthvert þá mætir hún, sama hvort hún sé með 40 stiga hita og kvef, meyjan stendur við þau loforð sem hún gefur enda þekkt fyrir áreiðanleika. Eins gæti ég vel trúað að meyjan standi á bak við helstu samgöngu- og gatnakerfi þessa heims, hún er svo yfirmáta skipulögð og vandvirk.
Hvílir sig með tilbreytingu
Meyjan er breytilegt jarðmerki. Hún hvílir sig með því að fá tilbreytingu í lífið eins og að fræðast um eitthvað sem hún vissi ekkert um áður og þá auðvitað eitthvað sem kemur að góðum notum. Eins finnst henni mjög afslappandi að vera í friði og ró að glíma við eitthvað sem krefst mikillar nákvæmni eins og að setja saman módel eða vinna með eitthvað annað í höndunum, meyjur eru handlagnar. Hér langar mig að staldra við og leggja áherslu á þetta með friðinn því meyjunni mislíkar hávaði, manngrúi og ringulreið, hún hefur tilhneigingu til að einangra sig; draga sig í hlé endrum og eins.
Klárar það sem hún byrjar á
Meyjan viðheldur lífsorkunni með því að vinna og hún þarf að sjá áþreifanlegan árangur vinnu sinnar. Hún klárar það sem hún tekur sér fyrir hendur, gerir það vel og af mikilli nákvæmni. Þau verkefni sem meyjan sinnir eru samt aldrei fullkomnlega tilbúin að hennar mati því alltaf er hægt að bæta þau. Það myndi henta meyjunni ágætlega að vinna sem rannsóknarblaðamaður eða einkaspæjari, meyjan er nefnilega gædd þeim hæfileika að vita hvenær verið er að ljúga að henni. Eins hefur verið sagt að meyjur séu gjarnan máttastóplar fyrirtækja í verslunar- og viðskiptageiranum. Þær gætu því hæglega stundað viðskipti.
Ástin
Karlmenn í meyjumerkinu eru oft mjög myndarlegir en eiga það til að vera gagnrýnir og vinna heldur mikið. Hins vegar hafa þeir sterka ábyrgðartilfinningu, eru trúfastir og vilja hjálpa þeim sem minna mega sín. Ef þú átt í eða vilt stofna til ástarsambands við meyju þá má vel hafa þetta á bak við eyrað:
- Það er mjög mikilvægt fyrir meyjuna að einkalíf hennar sé einkalíf svo EKKI undir neinum kringumstæðum gaspra um náin kynni þín af meyjunni, hún mun líklegast ekki fyrirgefa þér það.
- Þú veist að meyjan er ástfangin af þér þegar hún kemur vel fram og er háttvís í kringum þig.
- Meyjan gerir allt til að gleðja og gera vel við hann/hana sem hún elskar.
- Líkt og nautið þá tekur meyjan sér góðan tíma þegar kemur að samskiptum við hitt kynið og sérstaklega góðan tíma þegar hún er ástfangin.
- Ef þú ætlar að vinna hjarta meyju þá skiptir miklu máli að þú sért snyrtileg og hugsir vel um heilsuna.
- Gefðu þér tíma til að huga að smáatriðunum.
- Hafðu hugfast að meyjan fílar ekki blíðuhót á almannafæri.
FRÆGAR MEYJUR
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.