Fiskurinn (19. febrúar – 20. mars) er tólfta og síðasta merki dýrahringsins. Fræðin segja að fiskurinn búi yfir einhverjum eiginleikum allra merkjanna og eigi því mjög auðvelt með að aðlagast umhverfi sínu, setja sig í spor annarra og sýna skilning.
Þegar þið eigið í samskiptum við fiskinn ber þó að hafa í huga að hann er breytilegt vantsmerki og vatn getur komið í formi rigningar, slyddu, skýja o.s.frv. Því getur rólegur fiskur sem líkja má við lyngt vatn allt í einu tekið óvænt upphlaup.
Mikilvægi hvíldarinnar
Fiskurinn er næmur á umhverfi sitt sem þýðir að hann er næmur á tilfinningar og hugarástand fólksins í kringum hann. Það má líkja honum við svamp, fiskurinn þarf að muna að kreista svampinn til að losa sig við óþarfa vatn. Hvíldin er því mikilvæg fyrir fiskinn en sjúkdómar sem herja á hann eru oftar en ekki streitutengdir sjúkdómar.
Þá hefur hann einnig tilhneigingu til raunveruleikaflótta. Í því sambandi eiga sumir fiskar það til að leita í áfengi eða önnur vímuefni í miklum mæli.
Fiskurinn ætti að hlúa vel að fótunum því það er sá partur líkama hans sem þreytist auðveldlega.
Óútreiknanlegur og milli tveggja heima
Ef við skoðum táknið fyrir fiskinn þá sjáum við tvo fiska sem synda í gagnstæða átt. Það eru til tvær kenningar um af hverju það er svo.
Ein er sú að fiskurinn tekur mismunandi á málunum. Annaðhvort velur hann að synda á móti straumnum eða synda með honum allt eftir því hvað honum finnst eiga við eða hentar honum.
Önnur kenning er sú að einn fiskurinn sé hér á jörðinni en hinn bara í allt öðrum heimi, sveipaður ljóma töfra og ævintýra. Fiskurinn á það til að vera utan við sig. Það gæti verið vegna þess að hann sé staddur milli þessa tveggja heima.
Fjárhagurinn
Fiskar eru yfir höfuð ekkert sérstaklega góðir í hagfræði þó skal tekið fram að til eru fiskar sem hafa haslað sér völl á sviði viðskipta. Málið er að peningar vekja ekki mikinn áhuga og eru bara ekki forgangsatriði hjá flestum fiskum. Tilfinningaleg og andleg mál vega mun þyngra hjá þeim. Fiskum mislíkar t.d. valdagræðgi en peningar og völd eiga það til að fylgjast að. Sumir fiskar eiga það líka til að gefa óþarflega mikið af eigum sínum, þeir eru nefnilega flestir mjög gjafmildir og gestrisnir.
Ef þú ert fiskur sem hefur áhuga á fjárhagslegri velgengni þá eru hér nokkur ráð:
- Heillaðu milljónamæring upp úr skónum með dulúðlegu yfirbragði þínu og gifstu honum.
- Skrifaðu rómantíska skáldsögu, það eru góðar líkur á því að hún verði metsölubók og fyrr en varir verður þú farin að skrifa heila seríu.
- Ræktaðu listræna hæfileika þína, um aldir hafa margir frægustu listamenn heims verið í fiskamerkinu.
- Nýttu vitsmuni þína, ímyndunarafl og áhugann til að læra.
Að heilla fiskinn
Þegar fiskurinn verður ástfanginn þá kolfellur hann og mun aðlaga sig að kröfum sambandsins. Fiskurinn þarf rómantík og ævintýri svo til að heilla hann skaltu einfaldlega halda í höndina á honum, segja honum að þú elskir hann í raun og veru, gefa honum óvæntar gjafir og ef að fjárhagur leyfir fara með hann til rómantískra landa/borga eins og Parísar eða Prag.
PS. Það er rétt að taka fram að þegar stjörnumerki eru skoðuð þá er það ekki bara sólarmerkið (það merki sem tilheyrir afmælisdegi okkar) sem hefur áhrif á persónuleikann heldur líka önnur merki, sem dæmi þá er pistlahöfundur með sól í fiskum en á sama tíma rísandi bogmaður. Tvö ólík merki, vatn og eldur. Sumum finnst þeirra merki ekki vera lýsandi fyrir sína persónu. Ein af ástæðum þess er að við stjórnumst af mismunandi merkjum eftir því hvenær og hvar við fæddumst.
NOKKRIR FRÆGIR FISKAR
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.