Ég rakst á úrklippu úr gömlu blaði á netinu þar sem er farið yfir „lyndiseinkunir„ kvenmanna og tekið mið af þeim mánuði sem hver og ein fæðist í. Textinn kemur úr Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar sem kom út fyrir 120 árum eða árið 1900 en tekið er fram að þetta er „til að spauga að”.
Eftir því sem eldgamlir stjörnusápdómar segja fyrir eiga lyndiseinkunnir kvenmanna að fara eftir því í hvaða mánuði þær eru fæddar.
- Stúlka sem er fædd í janúar verður hyggin bústýra, góðlynd en hneigð til þunglyndis.
- Sé hún fædd í febrúar verður hún elskurík eiginkona og umhyggjusöm móðir.
- Sé hún fædd í mars verður hún léttlynd, lausmál og stælugjörn.
- Sé hún fædd í apríl verður hún kviklynd, einföld en lagleg.
- Sé hún fædd í maí verður hún falleg og hamingjusöm.
- Sé hún fædd í júní verður hún stórlynd, léttúðug og giftist snemma.
- Sé hún fædd í júlí verður hún fríð sýnum en mislynd.
- Sé hún fædd í ágúst verður hún geðgóð og nýtin og líkleg til að fá ríka giftingu.
- Sé hún fædd í september verður hún glaðlynd, hyggin og vel látin almennt.
- Sé hún fædd í október verður hún lagleg, glysgjörn og líkleg til að verða ógæfusöm.
- Sé hún fædd í nóvember verður hún góðgerðarsöm, blíðlynd og góð.
- Sé hún fædd í desember, sköruleg á velli, gefin fyrir nýjungar og prjál og óhófsöm.
Er eitthvað til í þessu? Mögulega. Þú verður að svara því fyrir sjálfa þig.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.