Larry Hagman viðurkenndi í nýlegu viðtali að kannabis hafi hresst hann við í glímunni við krabbamein en Larry er orðinn áttræður í dag.
Larry fékk á sínum tíma krabbamein í lifrina eftir að hafa drukkið ótæpilega árum saman, svo mikið að lifrin hreinlega gaf sig og hann þurfti á endanum að fá nýja.
Hann léttist mikið í veikindum sínum og við lyfjagjöf en hann segir hass, eða kannabisefnin, hafa komið matarlystinni í lag.
“Þetta hefur aldrei drepið neinn og er í raun mikið skaðlausara heilsunni en áfengi eða tóbak,” sagði sá gamli í viðtalinu en hann fékk nýja lifur grædda í líkamann árið 1995 eftir að hafa nánast komið sjálfum sér í gröfina með áfengisneyslu.
“Ég hélt upp á hverja senu í Dallas með því að fá mér kampavínsglas,” segir Larry sem byrjaði drykkjuna í kringum níu hvern morgun og hélt svo áfram fram eftir degi. “Ég var orðinn moldríkur af Dallas og ákvað því að drekka ‘ríkra manna drykkinn’ við hvert tilefni,” segir hann en hvert tilefni átti sér stað nokkrum sinnum á dag eftir að tökum á hverri senu lauk.
“Ég var fullur allann daginn. Byrjaði klukkan níu og hélt áfram þar til ég fór að sofa um kvöldið, hvern einasta dag vikunnar. Ég var alltaf fullur, í hverjum einasta Dallas þætti. Alltaf. Ég varð hinsvegar aldrei þunnur, lagði aldrei hendur á konuna mína, leið aldrei illa, líklegast vegna þess að það rann aldrei af mér. Ég lagði hvorki hendur á konuna né börnin og þessvegna hef ég líklegast haldið þessu áfram svona lengi,” segir Larry en það var orkuleysi sem á endanum kom honum til læknis og þar fékk hann stærsta áfall lífsins. Hann segist hafa hellt niður víninu og aldrei snert það aftur. “Núna drekk ég bara vatn.”
Kannabis reykti hann hinsvegar í kringum veikindi sín en hann greindist aftur með krabbamein í hálsinum í fyrra og er að jafna sig á því.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.