Ég verð að viðurkenna að ég skellti nokkrum sinnum upp úr þegar ég las mér til um ljónið við gerð þessarar greinar. Það er augljóst að ljónið (23. júlí – 22. ágúst) nær að heilla í persónu sem og á blaði.
Það er ekki annað hægt en að þykja vænt um þennan sjálfhverfa athyglissjúkling.
Hér er vert að staldra við og skoða orðið athyglissjúklingur því athyglisþörf ljónsins er það mikil að hún er sjúkleg. Ég las t.d. að það góða við veikindi, að mati ljónsins, er öll sú athygli og samúð sem oft fylgja þeim.
Ljónið er fædd stórstjarna sem á heima á sviði. Ekki endilega sviði í bókstaflegri merkingu því svið ljónsins er einfaldlega jörðin sem það gengur á.
Jafnvel hið hlédrægasta ljón kemst ekki hjá því að vekja athygli. Þið þekkið ljónið á fallegum makkanum og augljósum leiðtogahæfileikum og ljónið ber sig vel enda konungur, eða drottning, dýranna.
Það er að sjálfsögðu ekki hægt að fjalla um ljónið án þess að minnast á glæsilega makkann og bara glæsileika ljónsins yfir höfuð.
Það hefur verið sagt um konur í ljónsmerkinu að þær beri sig einstaklega vel, takið eftir myndum af Hollywood stjörnunum að neðan og þið skiljið hvað átt er við.
Konur í ljónsmerkinu búa yfir mikilli reisn, eru virðulegar og bera höfuðið hátt. Þær eiga það til að klæða sig svo eftir þeim sé tekið, samsvara sér vel, hafa mikla útgeislun og daðra (stöðugt) meðvitað og ómeðvitað. Þær eru þessar konur sem líta vel út við ALLAR aðstæður.
Fjárhagurinn
Kjörstaða fyrir ljónið væri að fá greitt fyrir að eyða peningum. Ljón eru snillingar í því að spreða en það er þeim nauðsynlegt til að viðhalda þeim íburðarmikla lífsstíl sem þeim finnst svo eftirsóknarverður. Eins mætti segja að þeirra helsta áhugamál sé að kaupa dýra hluti sem þau þurfa ekkert á að halda. Þetta spreð er í raun samt allt í góðu því að ef fjárhagsvandræði banka upp á þá á einhvern undraverðan hátt kemur tækifæri upp í hendurnar á þeim og þau ná að redda sér út úr málunum.
Það þarf vart að taka fram að ljónið ætti að leita í störf sem gerir því kleift að vera í sviðsljósinu og vera í samskiptum. Ljónið gæti einnig leitað í störf tengd sölu- og almannatengslum og svo auðvitað í öll stjórnunarstörf, sama á hvaða sviði. Þeim finnst mjög gott að fá að ráða.
Ástin: Svo örlátt og hlýtt en tekur sinn tíma
Ljónið er hlýtt, örlátt og ástríkt og þá sérstaklega gangvart fólkinu sínu. Það getur tekið ljónið ágætis tíma að finna rétta elskhugann vegna þess að væntingar ljónsins til ástarinnar eru miklar. Bogmenn, vogir og hrútar eru heppilegir elskendur fyrir ljónið en það vill umfram allt elskhuga sem er sjálfstæður, sterkur og heiðarlegur.
Hér eru nokkrir punktar sem geta hjálpað til við að vinna hjarta ljónsins:
- Alls alls ekki vera undirgefin/n.
- Þú skal dást að því hversu klárt, fallegt og ótrúlega heppið það er (gerðu þér grein fyrir því að ef þú ætlar í langtíma samband með ljóni þá þarftu að vera óþreytandi í hrósinu).
- Gefðu því gjafir, dýrar.
- Vertu glæsileg/ur.
- Forðastu að koma ljóninu í aðstæður sem lætur það líta hallærislega út.
- Komdu fram við ljónið eins og það sé miðpunktur alheimsins.
- Sýndu einlægni og tryggð.
- Það skemmir ekki fyrir að þú sért fræg/ur.
- Daðraðu við það og vertu fyndin/n.
- Sættu þig við athyglissýki þess.
Helsti galli ljónsins er sennilega hvað það getur verið montið. Madonna var alltaf viss um að henni væru ætluð frægð og frami, hún telst seint hógvær í yfirlýsingum sínum þess efnis en meðal annars hefur hún sagt að henni hafi alltaf þótt hún eiga skilið að komið væri fram við hana sem stjörnu. Og hún var ekkert að skafa af því þegar hún fór yfir stöðuna hér um árið þegar hún var gift Guy Richie:
“I am rich and famous. I have a talented and gorgeous husband and two beautiful children. I could go on,” sagði daman.
FRÆG LJÓN
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.