Þar sem bjartasti tími ársins er nú runninn upp er ekki úr vegi að staldra aðeins við og skoða krabbamerkið sem fagnar afmæli sínu á bilinu frá 21 júní – 22 júlí.
Fólk í þessu merki eru miklir náttúru sinnar; þau vilja drekka í sig birtuna, dansa alla nóttina og dekra við álfana á Jónsmessunni. Það er ekki laust við að þeir allra sprækustu vaki meira og minna framundir júlílok.
Krabbar eru með eindæmum kynþokkafullir, það bókstaflega lekur af þeim kynþokkinn, – að sjá krabba knapa á þeysireið á fallegu sumarkvöldi er sannkölluð veisla fyrir hungraða sál!
Krabbafólkið er ávallt vel til haft og með mikla tilfinningagreind. Þetta er glaðlynt fólk, stundum búlduleitt og á það gjarnan til að vera fölt á vangann enda litur krabbans og tunglsins grár og silfurlitur. Það skýrir föla en fallega vanga!
Krabbarnir eru skilningsríkir og kunna að fara vel með drauma annarra. Þeir eru heiðarlegir og búa yfir mætti til að eyða ótta. Krabbarnir þekkja hvað veldur streitu og vanlíðan og þeir forðast þær aðstæður eftir bestu getu.
Krabbar eru mikið fyrir fjölskylduna sína og sinna gömlum öfum og ömmum af stakri natni.
Þetta eru miklir sundmenn sem elska fjöruferðir og velja frekar sumarfrí erlendis við sjóinn með ástinni sinni heldur en stórborgarferð.
Krabbarnir eru með kveikt á öllum perum, flugklárir einstaklingar, glaðlyndir og trylltir elskhugar. Það skiptir krabbakarl í stuði engu máli hvort það er fjöruborðið, hlaðan eða fagurgrænn grasbali sunnan við læk!
Krabbinn getur léttilega tælt tígrisdýr, hann er lokkandi lúnkinn, það er ekkert kvikt sem stenst kynþokka krabbans, – hann meira segja kemst upp með ýmislegt á skrifstofunni!
Ef krabbi klípur í rass er það bara hressandi enda er hann sérstaklega hannaður til að klípa.
Frægir krabbar:
Díana prinsessa, Ernest Hemingway, Ingmar Bergman, Frida Kahlo, Dalai Lama, Franz Kafka, Bryndís Schram, Mike Tyson, Rose Kennedy, Raymond Chandler, Tom Cruise, Benedict Cumberbatch og Stefán Hilmarsson.
Dóra elskar að föndra við snittugerð en matur hefur alltaf haft mikil áhrif á hennar líf. Svo mikil að Dóra byrjar flesta morgna á að hugsa um hvað eigi að vera gott í kvöldmatinn. Hún býr á Seltjarnarnesi, á tvær æðislegar stelpur og sætasta golfara í heimi (að ólöstuðum okkar). Dóra lærði til lyfjatæknis árið 2001 en áhugamál hennar snúast um allt sem tengist mat, hreyfingu, dansi og útivist.