Leynt eða ljóst er eilíf valdabarátta milli karla og kvenna í samböndum en kynin nota þó mjög ólíkar aðferðir við að stjórna og tilgangur þeirra er misjafn.
Reynsla mín er sú að því óöruggara sem fólk er þeim mun meira reynir það að stjórna maka sínum og þetta getur leitt til alvarlegra vandamála.
Ég þekki dæmi um tvær ungar konur sem ungar “lentu í” eldri stjórnsömum mönnum.
Þær voru 17-18 ára og þeir um og yfir þrítugt. Ástæða þess að þeir leituðu í svona ungar stelpur var kannski sú að þær voru óspilltar og ómótaðar og þar finna þeir tækifæri til að móta, breyta og stjórna þeim svo þær verði eins og þeir vilja.
Samböndin byrja týpískt þannig að þeir lofsama þær út í hið óendanlega; Þær eru svo fallegar, klárar og frábærar og þær hrífast með og telja þá vera þroskaða, lífreynda og klára menn sem þær geta litið upp til.
En eftir smá tíma byrjar ballið, mennirnir byrja að setja út á þær, litlir hlutir fyrst, eins og hvernig þær klæðast eða hárgreiðslan, svo setja þeir út á hvernig þær haga sér og um hvað þær tala þegar þau eru á meðal fólks, þeir niðurlægja þær jafnvel fyrir framan aðra.
Stjórna í kynlífi og brjóta niður
Þeir vilja líka stjórna í kynlífinu, þeir ýta stelpunum til þess að gera hluti sem þeim jafnvel langar ekki til og þar sem þær eru óþroskaðar og ólífsreyndar þá leyfa þær þeim að ráða. En það sem er verst að eftir því sem þeim tekst að stjórna stelpunni meira þeim mun óánægðari eru þeir; þeir líta niður á þær, vanvirða og verða enn verri. Í þeim tilvikum sem ég þekki þá fóru þeir að segja við grönnu fallegu kærustur sínar að þær væru feitar, þær þyrftu að grenna sig, þeir hefðu ekki lyst á kynlífi með þeim lengur því þeim fyndist þær of feitar…
Nú leyfi ég mér að fullyrða að þeim fannst þær í raun ekki feitar heldur voru að biðja þær um þetta gagngert til að sjá hversu langt þeir gætu gengið -og þær grenntust og grenntust þangað til það var orðið svo alvarlegt að þær voru lagðar inn á sjúkrahús með næringu í æð.
Þessum mönnum tókst að eyðileggja sjálfstraust þessarra fallegu ungu stúlkna. Þær eru báðar fyrir löngu búnar að losna við mennina og orðnar fullorðnar en þær detta þó reglulega í “þunglyndi” sem lýsir sér í svelti og átröskun.
Set spurningarmerki við þessi sambönd
Vegna þeirra og fleiri kvenna sem ég þekki þá set ég alltaf mjög stórt spurningamerki við sambönd eldri manna og ungra stúlkna. Mörgum finnst ég dómhörð og fordómafull þegar ég lýsi andúð minni á því þegar fullorðnir menn sækjast í stúlkur sem eru nógu ungar til að vera dætur þeirra, því einhvers staðar í þróuninni sagði einhver okkur að það væri í lagi??
En satt best að segja hef ég aldrei séð þannig samband ganga upp þó það hafi litið út fyrir að gera það á yfirborðinu.
Í mínum bókum er eðlilegt, gott og heilbrigt samband einfaldlega samband jafningja. Þau geta aldrei talist jafningjar þegar hann er nægilega gamall til að vera pabbi hennar, eða gott betur. Svo ekki sé minnst á ef fjárhagur hans er margfalt sterkari sem er nú oftast raunin í svona samböndum.
Við megum því alveg efast um innræti og ágæti eldri manns sem reynir við dóttur okkar, systur eða frænku og ég tel það ekki vera afskiptasemi heldur hugrekki og væntumþykja sem fær okkur til að vara þær við, og jafnvel tala við viðkomandi mann, á máli sem hann skilur.
Að sjálfssögðu er ein og ein undantekning á þessu en þær eru ekki nægilega margar til að gera útaf við þá staðreynd að svona sambönd eru oftast hlaðin andlegu ofbeldi. Því legg ég til að við setjum alltaf upp röntgengleraugun og skiptum okkur hiklaust af ef okkur sýnist stefna í óefni af þessu tagi hjá einstaklingum sem eru okkur kærir.
Hér eru fleiri greinar um átröskun:
5 ástæður til að deita stelpu með átröskun
Að vera sátt við sjálfa sig: Guðrún Veiga skrifar um lystarstol
Búlimía: Margar hafa orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðisofbeldi í æsku
Fyrir og eftir myndir sem sanna að fólk með átröskun getur náð bata
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.