Hvað er það fyrsta sem ég hugsa þegar ég hugsa dans? Lykt af hárspreyi, hárið mitt tekið saman í óþægilegan snúð, stórir speglar, dramatísk píanó tónlist, spandex búningar, hvítar sokkarbuxur. Gamall franskur kall að slá mig í rassinn með göngustaf að segja að ég sé feit. Listdans. Kröfur, blæðandi tær… ballet. Ég var í ballet en lífið er of stutt til að staldra of lengi við bara í einni listgrein svo ég gerði annað.
Ég hugsa meira um dans. Suðrænar hreyfingar, börn í mjaðmarykkingum með sprey-tan og bros sem ættu frekar heima á andliti Jim Carey á Madame Tusauds. Keppnis æstar mömmur, litlir drengir í þröngum svörtum buxum og skyrtuna hneppta niður. Litlar stúlkur í litríkum alltof flegnum kjólum. Samkvæmisdans… Eitthvað svo rangt við þessa búninga, eitthvað svo tryllt að sjá börn dansa svona og þessar undarlegu andlitsgeiflur sem fylgja. En þetta er líka dans. Ég hugsa um gleðina, hvað það er gaman að sleppa tökunum og bara dansa, ekki eftir einhverri formúlu, rútínu, óháð tísku eða tíma. Loka augunum og hlusta á taktinn innra með sér, sem er sá sem leiðir mann í gegnum hreyfingarnar með tónlistinni…eða án.
Katrín Gunnarsdóttir er dansari Hún er ekki samkvæmis dansari, ekki þessi týpíski ballet dansari heldur meira svona listakona sem notar líkamann til þess að ná fram einhverri mynd, einhverjum heimi sem aðeins hún ein sér.
Það er oft sagt við mig sem söngkonu að það sé svo hugrakkt að koma fram og syngja. Það er svo fyndið því mér finnst það bara alls ekki. Ekki fyrir mig. Það kemur bara náttúrulega eitthvað sem flæðir. Hinsvegar þegar ég horfi á dansara sem semja sinn eigin dans og setja upp sýningar, oft alveg án orða, gera einungis hreyfingar sem segja einhverja sögu. Þá finnst mér það alveg stjarnfræðilega hugrakkt.
Eins og ég upplifði þetta fór hún í gegnum ýmsar hreyfingar og ákveðin tímabil danssögunnar og spegillinn á gólfinu fyrir mér, var klukka. Katrín var vísir, pendúll og augnablikið. Það er einmitt þannig þegar saga er bara sögð með líkamanum, engum orðum eða tónum.
Þá fær ekki bara dansarinn, sem að þessu sinni var Katrín Gunnarsdóttir, að njóta sín, heldur einnig ýmindunaraflið þitt eftir að þú slakar á, hættir að finnast fyrsta mínúta af þögn í dimmu herbergi með fullt af ókunnugu fólki skrýtin og lærir að njóta þagnarinnar. Það gerast nefnilega galdrar í eyðunum, þögn og eftirvæntingu.
Skelltu þér á Shades of History í Tjarnarbíó, fylgdu hreyfingum Katrínar og ferðalagi hugsanna þinna ásamt fallegu sviðs og hljóðmyndarinnar sem bæði spila risastóran þátt í þessari sýningu sem virðist í raun afar einföld er þú sest niður en er afskaplega, undursamlega flókin. Eins og lífið sjálft, sem er kannski bara dans?
Næsta sýning, sem jafnframt er sú síðasta, verður í Tjarnarbíói þann 6 des og þú getur keypt miðann HÉR.
http://www.katringunnarsdottir.com/
Þórunn Antonía Magnúsdóttir, söng og leikkona, er flestum landsmönnum kunn. Hún hefur áhuga á ótal mörgu, en þó aðallega tónlist, móðurhlutverkinu, kvenhlutverkinu, ástinni, listinni og lífinu. Hún er í farsælli sambúð og á eina dóttur.