Kristín Tómasdóttir hefur á undanförnum árum þróað sjálfstyrkningarnámskeið fyrir stelpur á aldrinum 10-15 ára en Kristín byggir námskeiðin á bókunum sínum Stelpur (2010), Stelpur A-Ö (2011) og Stelpur geta allt (2012).
Ég hafði samband við Kristínu og forvitnaðist aðeins um þessi námskeið en á þeim leitast hún við að kenna þáttakendum þrennt.
1. Hvað hugtakið sjálfsmynd merkir
2. Hvernig stelpurnar geta lært að þekkja eigin sjálfsmynd
3. Hvernig hægt er að hafa jákvæð áhrif á sjálfsmyndina
Ég tel að þessar upplýsingar geti haft mjög fyrirbyggjandi áhrif þegar kemur að neikvæðri þróun sjálfsmyndar stelpna sem því miður er allt of algengt um og uppúr 10 ára.” segir Kristín, sem hefur ferðast víða um land með námskeiðin við góðar undirtektir.
Hún segir að eftirspurnin eftir námskeiðunum hafi í raun komið sér að óvart, bæði hversu tilbúnar stelpurnar sjálfar eru í vinnu með sjálfsmynd sína en einnig hvað foreldrar virðast þyrstir í þjónustu eins og þessa.
“Ég held að foreldrar finni sterkt fyrir því að sjálfsmynd dætra þeirra byrjar að verða mun neikvæðari en þeim finnst þær eiga innistæðu fyrir á þessu for-gelgjuskeiði. Það er bæði gott og slæmt. Gott því foreldrar eru orðnir meðvitaðri um mikilvægi þess að vinna með sjálfsmynd stelpna en slæmt að það skuli í alvörunni vera þannig að flestar stelpur fari að efast mikið um sjálfar sig milli 10-12 ára aldurs. Þær eru kannski mjög duglegar, samviskusamar og hæfileikaríkar en samt er sjálfsmynd þeirra ekki í lagi og foreldrar þeirra vita oft ekki hvernig á að hjálpa þeim að styrkja hana.”
Fókusera of mikið á spegilmyndina
Kristín segir flestar stelpur mjög uppteknar af því sem þær sjá í speglinum og að þær séu almennt ekki sáttar við eigin spegilmynd. Hún er þó ekki viss um að stelpur í dag hafi almennt lélegri sjálfsmynd en áður fyrr, straumar hjá kynslóðum séu breytilegir og það sama gildi fyrir árganga og mismunandi hópa.
“Svo er ekki það sama að vera þrettán ára eða þrettán ára. Stelpur sem eru fæddar á sama aldursári geta verið misþroskaðar, fæddar í upphafi árs eða lok árs og svo framvegis en það sem er að gerast með sjálfsmyndina á aldrinum 10-20 ára er einfaldlega að við erum að færa hana frá sjálfsmynd barns yfir í það að vera fullorðin. Á námskeiðunum skoðum við hvað það er sem hefur áhrif á sjálfsmyndina og hvernig er hægt að hafa áhrif á að sjálfsmyndin verði jákvæð.”
Eins og fyrr segir hefur Kristín þegar gefið út nokkrar bækur um málefnið en þær notar hún eftir því sem við á í kennslunni:
“Margar stelpur hafa skoðað bækurnar mínar, eiga þær jafnvel og hafa gaman af þeim. Það auðveldar þátttakendum að átta sig innihaldi námskeiðsins. Ég reyni að skapa afslappað andrúmsloft í gegnum leik, verkefni og skemmtun. Einnig elda ég mat með stelpunum sem skapar oft örðuvísi umræður og stemmningu sem er mikilvæg í þessu samhengi.”
Kristín er að fara af stað með 12 vikna námskeið fyrir stelpur 10-13 ára í Reykjavík. Hún verður einnig með tveggja daga námskeið á Selfossi og Akureyri í September.
Á facebook síðunni Stelpur má nálgast allar frekari upplýsingar um námskeiðin en tekið er við skráningu á netfangið stelpur2012 hjá gmail.com eða í síma 6624292.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.