Í Karen Millen í Kringlunni fást mjög flottar gallabuxur. Þröngar og síðar, áferðin á þeim er ljós og þær eru allar í hvítum skellum eins og þær hafi verið snjóþvegnar. Lengi voru þær í útstillingu í gluggannum.
En þessar flottu buxur voru mjög dýrar. Það er smá biti að borga meira en 20 þúsund fyrir tískugallabuxur, eitthvað sem er inn núna en gæti dottið út aftur eftir nokkra mánuði. Þess vegna voru buxurnar settar í salt og ekki hugsað um þær meira.
Þangað til nokkru síðar að ég fór á útsölumarkaðinn í Sautján á Laugavegi. Það fyrsta sem ég sá þegar ég gekk inn um hurðina voru einmitt svona smart snjóþvegnar og þröngar gallabuxur. Nema þessar voru líka með götum, algert æði! Verðið kom skemmtilega á óvart en það var um 150% ódýrara en þær hjá Karen Millen. Auðvitað keypti ég buxurnar og snjóþvegna útlit helst vonandi eitthvað áfram inn í veturinn. Svona má oft finna sömu flíkina á ódýrara verði, það sér enginn muninn!
Það er smart að fara í svarta lakkhælaskó við svona ljósar gallabuxur, einfaldan svartan bol og aðsniðinn svartan jakka. Ein massív og hvít perlufesti setur síðan elegant svip á heildarmyndina.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.