Stefán Svan Aðalheiðarson er innkaupastjóri í herradeild verslunar Sævars Karls við Hverfisgötu en hann tók til starfa þar fyrir ári síðan eftir að hafa unnið hjá m.a. GK og KronKron.
Stefán segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á bæði fötum og tísku en hann útskrifaðist úr fatahönnunardeild LHÍ árið 2005 og segir námið hafa nýst sér vel í starfi sínu.
“Ég man ekki eftir mér öðruvísi en með mikinn áhuga á fatnaði og tískustraumum. Ég hafði alltaf skoðanir á því hvað var keypt á mig eða í hvað ég var klæddur þegar ég var krakki og sem betur fer var ég yfirleitt sáttur. Mamma saumaði líka föt á okkur systkinin og fórst það mjög vel úr hendi. Ætli áhuginn á þessu sé ekki að mestu kominn frá henni,” segir Stefán.
Íslenskir karlmenn taka fáa sénsa
Spurður að því hvað honum finnist um klæðaburð íslenskra karlmanna segir hann þá flesta þokkalega til fara en kannski heldur varkára í fatavali.
“Þeir taka engar áhættur og þurfa yfirleitt samþykki frá fjöldanum eða hvor öðrum. Ef eitthvað er komið í tísku, þá er hægt að ganga lengra. Mér þætti skemmtilegt að sjá íslenska karlmenn áræðnari í klæðaburði og vali. Maður sér það yfirleitt þegar maður ferðast til annara landa og það er gaman að því. Auðvitað fylgir fólk straumum og stefnum hvar sem er í heiminum og það er alltaf eitthvað sem stuðst er við frá tískunni en það væri gaman að sjá einstaklingseðlið brjótast sterkar fram í fatavali íslenskra karlmanna,” segir Stefán og bætir við að herrafatnaður bjóði kannski ekki upp á mikið tjáningarfrelsi en þó sé gaman að leika sér að því sem er í boði: “Þó það séu ekki nema bara sokkarnir.”
Mundi er stjarna
Undanfarin misseri hefur íslensk hönnun, og þar með talinn fatahönnun, verið áberandi í fjölmiðlum. Stefán fagnar þessu og segir verulega gaman að fylgjast með framlagi íslenskra hönnuða til herratískunnar.
“Ég er til dæmis rosalega hrifin af hönnun Munda. Margir halda að hann sé ofsalega flippaður og að maður verði að vera óskaplega flippuð týpa til að klæðast hönnun hans en það er misskilningur. Það er hægt að nota fötin hans með öðrum einfaldari fatnaði og útkoman er bara glæsileg. Mundi er algjör stjarna,” segir Stefán.
Þeir sem ruddu brautina
“Hvað varðar aðra hönnuði sem ruddu brautina fyrir íslenska karlmenn má nefna Indriða heitinn sem kenndi mörgum að klæða sig betur. Hann var litríkur og skemmtilegur karakter sem hafði sterkar skoðanir og hafði jákvæð áhrif á fólkið í kringum sig. Svo var Sævar Karl frumkvöðull á sínum tíma þegar hann opnaði verslunina árið 1974. Klæðskeraverslun sem verslaði með góð efni og bauð upp á góða þjónustu, þá bestu sem völ var á. Hann skapsaði svo gott orðspor að búðin lifir enn á hans nafni þó að hann sé ekki lengur eigandi verslunarinnar.
Að lokum er lag að spyrja Stefán hvað honum finnist versti ósiður íslenskra karlmanna í klæðaburði.
“Sandalar. Iðnaðarsandalar. Sumir eru bara alltaf í sandölum og hnébuxum yfir sumarið en ættu hreinlega að sleppa því. Ég segi ekki að allar hnébuxur séu slæmar en það má stundum leita aðeins út fyrir rammann í þessu sem öðru,”
…segir ljúfmennið Stefán Svan að lokum.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.