Þótt úti sé sífellt grenjandi rigning, ef ekki minni þá meiri, það rignir bæði ofan á mig og upp í nefið á mér og ég hef sjaldan notað regnkápuna mína eins mikið.. kemur það ekki í veg fyrir að ég skipuleggi sumarið.
Núna þegar gengi evrunnar er mjög hátt á móti krónunni og dollarans sömuleiðis, þá dreymir mig auðvitað enn heitar um að komast til útlanda. Ó, já ! Víst er að fyrir svoleiðis pjattrófustand eru góð ráð dýr.
Fyrirheitna landið er Evrópa eins og hún leggur sig því þar er fjöldinn allur af spennandi stöðum: Pólland, Þýskaland, Spánn, Ítalía ofl.
Þar sem þetta lætur mig ekki í friði og rigninginn er á góðri leið með að drekkja mér lifandi hef ég legið á netinu undanfarið í þeim tilgangi einum að finna mér frábæran en viðráðanlega dýran samastað, helst í fallegri borg. Viti menn.. ég datt fyrir tilviljun inn á þessa skemmtilegu heimasíðu.
Þarna er hægt að setja sig í samband við fólk, út um allan heim, sem hefur áhuga á að skiptast á íbúðunum sínum til lengri eða skemmri tíma yfir sumarið.
Mér fannst þetta bara dálítið sniðugt.
Þarna sá ég meðal annars auglýsta 145 fm íbúð í hjarta Parísar, við fótskör Café de Flore og Armani búðarinnar í ljósaborginni fögru. Aðra íbúð sá ég auglýsta í S-Frakklandi, nánar tiltekið við Miðjarðarhafið!
Þessar tvær auglýsingar hafa kveikt nægilega vel í mér til þess að ég freisti gæfunnar … og reyni að skiptast á þessu og minni íbúð í nokkrar vikur!!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.