Ég var fengin til að skrifa grein í Læknanemann, tímarit læknanema. Greinin er útlistun á einkennum lækna eftir því hvaða stjörnumerki þeir tilheyra.
Ég er nú þegar búin að birta vatnsberann, fiskinn, hrútinn, nautið, tvíburann, krabbann, ljónið, meyjuna og vogina . Hér kemur sporðdrekinn.
Sporðdrekinn 23. október – 21. Nóvember
Úthald sporðdrekans og stáltaugar gera honum kleift að verða úrvals skurðlæknir. Hann getur líka auðveldlega stjórnað skurðstofunni með heraga ef eitthvað fer úrskeiðis og samstarfsfólkið byrjar að “panikka”.
Sporðdrekinn mun fljúga í gegnum læknanámið og í starfi sínu sem læknir mun hann vilja sinna verkefnum sem eru krefjandi og helst fást við eitthvað sem öðrum læknum þykir ógerlegt. Kannist þið ekki við einstaklinga sem rétt renna yfir texta og hafa um leið 100% skilning á honum? Það er sporðdrekinn.
Fyrir utan skurðlækninn gæti sporðdrekinn gerst meinafræðingur eða geðlæknir. Læknir í sporðdrekamerkinu hefur þörf fyrir að stunda rannsóknir og sundurgreina hluti. Sporðdrekinn gæti orðið fyrirtaks geðlæknir vegna þess að a) hann er góður hlustandi b) hann hefur djúpan skilning á því andlega einfaldlega vegna þess að hann sjálfur er líklegast þjökuð sál (þó að það sjáist að sjálfsögðu ekki, sporðdrekar eru dularfullir).
Frægir sporðdrekar: Matthew McConaughey, Björk Guðmundsdóttir og Jodie Foster.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.