Á 29. Listahátíð í Reykjavík 2015, þegar 45 ár eru liðin frá því að hátíðin var haldin í fyrsta sinn, mun Íslenski dansflokkurinn frumsýna OBSIDIAN pieces þar sem sýnd verða verk eftir heimsþekkta danshöfunda. Verkin verða frumsýnd 23. maí 2015 á stóra sviði Borgarleikhússins og verða aðeins þrjár sýningar í boði.
OBSIDIAN pieces er einstakt danskvöld sem samanstendur af brotum úr hinu víðförla og geisivinsæla dansverki Babel (words) eftir Sidi Larbi Cherkaoui og Damien Jalet og Black Marrow eftir Ernu Ómarsdóttur og Damien Jalet, sem er sérstaklega útfært fyrir Íslenska dansflokkinn, með frumsaminni tónlist Ben Frost.Sidi Larbi Cherkaoui er einn allra eftirsóttasti danshöfundur heims í dag. Hann hefur meðal annars samið fyrir Parísar Óperuna, Cedar Lake í New York, Konunglega danska ballettinn og Anna Karenina kvikmyndina en þetta er í fyrsta skiptið sem verk eftir hann verður sýnt hér á landi. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín og hlaut hann frönsku riddaraorðuna 2013 fyrir framlag sitt til lista á heimsvísu.
Erna Ómarsdóttir er einn virtasti dansari og danshöfundur Íslendinga og hefur unnið með nokkrum fremstu dans- og sviðlistahópum Evrópu. Hún er nýtekin við starfi listræns ráðgjafa Íslenska dansflokksins en undanfarin ár hefur hún aðallega unnið að eigin verkum með danshópnum sínum Shalala sem hefur notið mikilla vinsælda í Evrópu. Erna hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín sem listamaður, þar á meðal fimm Grímuverðlaun.
Damien Jalet hefur notið mikillar velgengni sem danshöfundur og dansari. Hann hefur meðal annars samið verk fyrir Parísar Óperuna, Skoska Ballettinn, Louvre safnið í París og Íslenska dansflokkinn við mjög góðan orðstír og unnið með stórstjörnum úr listaheiminum á borð við Marinu Abramovic, Bernhard Willem, Christian Fennesz og Ólöfu Arnalds. Síðastliðin ár hefur hann unnið mikið með Sidi Larbi Cherkaoui og Ernu Ómarsdóttur.
Leiðir þessara þriggja listamanna lágu síðast saman í verkinu Foi eftir Sidi Larbi Cherkaoui sem sýnt var víða um heim á árunum 2003 til 2010 og vakti ómældan fögnuð áhorfenda.
Þau hafa öll vakið verðskuldaða athygli fyrir sérstöðu sína sem listamenn og verður spennandi að sjá dansara Íslenska dansflokksins spreyta sig á verkum þeirra á stóra sviði Borgarleikhússins í maí á komandi ári.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.