Það er alveg ótrúlegt hvað börn eru ung þegar þau fara hafa skoðanir á því í hverju þau eru, en litli frændi minn sem er tæplega tveggja ára algjörlega neitar að vera í náttfötum með sokkum.
Systir mín hafði nýlega keypt þrjá náttgalla með áföstum sokkum og fannst ferlega fúlt að geta ekki notað gallana þegar henni datt í hug að klippa sokkana af og láta stroff í staðinn.
Hún var ekki lengi að fara í næstu hannyrðarbúð, kaupa stroff í stíl, taka upp skærin, klippa sokkana í burt og sauma stroffið á en nú sefur litli frændi vært og rótt sáttur að vera ekki með einhverja sokka utan um táslurnar sínar.
Þetta getur þú einnig gert þegar krílið er vaxið upp úr göllunum en lengdin á höndunum smellpassar.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.