Ég hef nær allt mitt líf verið einhleyp eða nánar tiltekið 96,4% af ævinni (já, ég reiknaði…). Ég hef aldrei verið í alvarlegu sambandi og ég hef aldrei búið með karlmanni.
Ég hef orðið ástfangin einu sinni… eða eins ástfangin og 13 ára unglingur getur orðið en þá var ég samasem tilbúin að ganga í hjónaband með nær því hverjum sem er, eins lengi og hann hefði átt hjólabretti og hlustaði á annað hvort rapp eða rokk, eða þætti það allavega ekki leiðilegt.
Það að drengurinn, sem mitt 13 ára hjarta fékk ekki nóg af, hafi gengið um í KA-galla flesta daga vikunnar og leikið sér í byssó eftir skóla kom málinu bara ekkert við, á meðan að fyrrgreindum kröfum var mætt.
Eftir því sem ég verð eldri og einhleypari (prósentustigið hækkar með hverjum degi þið skiljið) verð ég kröfuharðari á þá karlmenn sem ég vill hleypa inn í líf mitt. Ég finn kröfurnar aukast með hverjum deginum og með hverjum deginum verður kippurinn í hjartanu harðari þegar minnst er á alla kettina sem sitja umkomulausir inn á Kattholti þar sem ekkert bíður flestra þeirra annað en svæfing.
Það mætti kannski lesa úr þessu að ég sé orðin æst í það að vera ekki einhleyp lengur en staðreyndin er í raun hið gangstæða, með hverjum deginum hallast ég meir og meir að því að kaupa mér Snuggie, breiða upp fyrir haus og sofna við malkór frá öllum tíu köttunum sem ég mun líklega ættleiða í framtíðinni, en með hverjum deginum átta ég mig líka betur á því hve hagstætt það er að vera í sambandi.
Ég myndi spara mér allavega Snuggie kaupin og mörg tonn af kattamat, ég myndi spara mér einhverja þúsundkalla í húsaleigu og kostnaðurinn sem færi í bílinn myndi helmingast, kostnaður við matarinnkaup myndi líka snarlækka þar sem helmingurinn af þeim mat sem ég kaupi inn eyðileggst oftast vegna þeirrar kröfu minnar um að neyta fjölbreytts fæðis, þ.m.t. grænmetis og ávaxta sem er víst ekki hægt að frysta.
Ef ég gæti svo virkilega sparað þegar kemur að þessum þáttum gæti ég kannski uppfyllt drauma mína um að ferðast til fjarlægra landa?
Í nafni sparnaðar og draumsins um ferðalög verð ég því kannski að fresta því að koma mér upp kattar -gengi og garga út um gluggana á börnin í hverfinu að hafa lágt og bíða í nokkur ár í viðbót og sjá hvort ástin láti kannski aftur á sér kræla í formi karlmanns sem uppfyllir, nú, stórlækkaðar kröfur mínar…
…leiguverðið er nefnilega orðið ekkert eðlilega hátt!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.