Það besta við tónlistarhátíðir á borð við Sónar er að uppgötva nýja listamenn eins og „When saints go machine“!
Við vinkonurnar féllum alveg kylliflatar fyrir magnaðri frammistöðu þessarar hljómsveitar. Fyrir utan þetta kraftmikla taktfasta electro-popp-house sem fékk líkamann til að sveigja sig og beygja í takt þá var eitthvað sérstaklega dásamlegt við söngvarann sem söng með tærri englarödd af svo mikilli innlifun að allir í salnum gátu ekki annað en hrifist með og stemmningin var hreint mögnuð.
Nikolaj söngvari lítur út eins og litli bróðir Kurt Cobain og Axl Rose (sjá mynd) en röddin minnir þó óneitanlega á Antony Hegarty (Antony and the Johnsons) og James Blake sem einnig er í gífurlegu uppáhaldi hjá undirritaðri.
Margar hljómsveitir eru svo miklu betri „live“ en á disk, ekki það að þessir kappar séu slæmir „á disk“ alls ekki- heldur finnst mér gæðamerki ef hljómsveit er verri live en í stúdíó þá vantar eitthvað uppá innihaldið.
Ég er búin að hlusta á tónlist „When saints go machine“ alla aftur og aftur síðan síðustu helgi og er gjörsamlega kolfallin, enda veit ég ekkert betra til að lífga uppá hversdagsleikann en að verða “ástfangin” af nýrri hljómsveit reglulega.
Strákarnir í „When saints go machine“ eru danskir Kaupmannahafnarbúar og hafa verið að síðan 2007. Þeir Silas Moldenhawer (trommur), Jonas Kenton (synthi, bakraddir), Simon Muschinsky (hljómborð) and Nikolaj Manuel Vonsild (söngur) fengu verðlaun fyrir að vera „Bestu nýliðarnir“ hjá P3 tónlistarstöðinni árið 2008 og fengu æðstu tilnefningu sem “Tónlistarmenn ársins” frá P3 árið eftir. 2010 opnuðu þau svo „Orange stage“ á Hróarskelduhátíðinni sem er talinn sérstakur heiður og hafa spilað á hátíðinni síðan.
Þeir hafa gefið út 3 plötur sem allar hafa fengið frábærar viðtökur og ég mæli með að fletta upp á þeim á Spotify eða kaupa nýjasta diskinn „Infinity Pool“.
Vinsælustu lögin eru “Kelly”, “Church and Law”, “Add Ends”, „System of unlimited love“ og „Mannequin“ sem á áhrifaríkan hátt fjallar um að vera fastur í fjötrum mannsals.
Hér má hlusta á þessa RUGL flottu hljómsveit Live á Hróarskeldu 2013:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=ziiPG0eX38E [/youtube]Og hér eitt rólegra um mansal- Mannequin:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=KbaoMyrG1e8[/youtube]Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.