Þann 14. febrúar 2013 kom saman einn milljarður manna í 207 löndum og dansaði í tilefni af Milljarður rís.
Á Íslandi komu saman 2100 menn, konur og börn á öllum aldri í tónlistarhúsinu Hörp og dönsuðu eins og þau höfðu aldrei gert annað en á sama tíma tóku þau þátt í feminískri byltingu. Í ár var leikurinn endurtekinn og það var heldur betur dansað fyrir réttlæti í heiminum.
Í ár endurtóku UN Women leikin í samstarfi við Sónar raftónlistarhátíðina og Lunchbeat. Markmiðið var að fá 3000 manns saman í Hörpu í hádeginu síðastliðin föstudag og dansa fyrir réttlæti og það markmið náðist.
Það var æðislegt að dansa með 3000 manns og finna fyrir sterkri samstöðu og vilja sem kallar á breytingar í heiminum. Það fannst vel í andrúmsloftinu í Hörpunni þennan dag að það var einungis ást og góður vilji í salnum. Það að allt þetta fólk skildi taka sér tíma til þess að koma og standa saman gegn ofbeldi og berjast fyrir réttlæti í heiminum er svo fallegt.
Ég vona svo innilega að þessu verði haldið áfram á komandi árum, því að vakningin er hafin og það er svo sannarlega komin tími á breytingar í þessum litla heimi okkar. Mér fannst jákvætt að sjá það að DJ Margeir skildi styrkja þetta málefni og þeyta skífum fyrir fjöldann og að Högni úr Hjaltalín steig á svið og tók lagið. Ég vonast eftir að sjá konu þeyta skífum á næsta ári. Ég veit að við eigum nóg af flottu plötusnúðaskvísum sem myndu vera meira en til í að láta gott af sér leiða fyrir þennan málstað. Það kom mér jafnframt á óvart að engin kona steig á svið á þessum viðburði en á sama tíma finnst mér frábært að sjá karlmenn standa upp fyrir réttindum kvenna.
Ein af hverjum þremur konum verður fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Í ár var dansað af krafti fyrir þær og sýnt í verki að okkur stendur ekki á sama. Dansað fyrir mannréttindum kvenna, fyrir heimi þar sem konur og stúlkur þurfa ekki að líða ofbeldi vegna kyns síns.
Anna Brá Bjarnadóttir er fædd á því herrans ári 1986, sama ár og Gleðibankinn hóf raust sína í júró, sem er mögnuð tilviljun þar sem stúlkan er sjálf vel stæður Gleðibanki! Anna starfar sem skemmtanastjóri og dj á Loftinu og Lebowski Bar en er á sama tíma algjör græju gúrú og fíkill. Anna er útskrifuð af tæknibraut Kvikmyndaskóla Íslands og hefur m.a. starfað við fjölda auglýsinga og sjónvarpsþátta. Hún býr við Norðurmýrina með hundinum Tinna og kærastanum og kokkinum Jónasi.