Á veturna þurfa flestar húðgerðir endingarbetra og feitara krem en á sumrin. Til þess að verða ekki eins og veðurbarinn harðfiskur þegar tekur að frysta, er rétt að fara að líta í kringum sig eftir góðu dagkremi.
Gott og virkt dagkrem getur virkað sem hin besta veðravörn og viðhaldið réttu rakastigi húðarinnar. Húðin okkar vinnur best á vandamálum ef hún hefur nægilegan raka.
Einnig get virk plöntuúrefni í háklassa kremum gert sitt til að draga úr fínum línum, aukið ljóma og heilbrigði húðar.
Eðlilega eru ekki allir með sömu húðgerðina og því einnig misjafnt hversu mikið fitumagn í kremi við þurfum eða þolum. Aldur húðar segir einnig til um hversu virk efni er æskilegt að við notum.
Kyn okkar segir líka til um hvernig efnablanda hentar okkar húð og já karlmenn þurfa líka dagkrem. Gott er því að leita ráða hjá næsta húðsnyrtifræðingi, hvaða krem hentar þinni húðgerð, kyni og aldri best.
Munurinn á kostnaðarminni kremum og kremum í dýrari kantinum er oftast fólgin í magni dýrari innihaldsefna og þar af leiðandi hvar í röðinni í innihaldslýsingu þau eru.
Þrjú til fimm fyrstu innihaldsefnin segja til um hvað kremið í raun inniheldur. Restin af innihaldsefnunum þarf ekki að ná einu prósenti til að hægt sé að telja það upp sem innihaldsefni.
Í kremum eru misjöfn rakabindandi efni. Eitt þeirra, lanolin getur t.d. verið ofnæmisvaldur og virkað húðstíflandi fyrir feita húðgerð á meðan siloconfitur eins og t.d. dimethicone eða methicone eru ekki ertandi né ofnæmisvaldar og stífla ekki húð. Í þessu felst meðal annars verðmunur krema. Verðmunur felst einnig í endingu krems. Þá á ég við að dagkremið dugi húðinni út daginn án þess að mikið magn sé notað.
Það er fullt af góðum kremum á markaðnum. Nú er bara að fara á stúfana og finna rétta kremið fyrir veturinn áður en í óefni er komið. Valið er þitt.
Á öllum betri snyrtistofum og snyrtivöruverslunum ættir þú að geta fengið ráðgjöf og prufu til að sjá hvort kremið henti þinni húð.
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come