Þegar sumrinu seinkar, líkt og við á höfuðborgarsvæðinu höfum fengið að finna fyrir, er ekki seinna vænna en að redda sumarstemmningunni öðruvísi en með sólinni.
Þrátt fyrir sólarleysi þá hefur veðrið verið hlýtt og því fylgir einn góður kostur: Neglurnar lifna við!
Á veturnar eru neglurnar mínar hundleiðinlegar: þunnar, viðkvæmar og þær brotna við minnsta tilefni (eitt sinn braut ég nögl með hugarorkunni einni, sönn saga).
Um leið og veðrið byrjar að batna og Lóan vappar um gerist eitthvað magnað hjá nöglunum mínum -mórallinn verður allt annar. Þær vaxa hratt, styrkjast og verða hinar fínustu en þessu fagna ég á sumri hverju með því að fá mér fallegt naglalakk!
Í vor var nýja línan frá Clinique fyrir valinu.
Yfir veturinn notast ég við dökka liti og held nöglunum stuttum (enda fátt annað í boði) en úr því að neglurnar mínar eru í blóma fannst mér vel við hæfi að taka fallegan ljósbleikan lit, svo þessar nýtilkomnu löngu neglur mínar fái að njóta sín.
Nýju lökkin frá Clinique eru frábær og liturinn kom strax vel út við fyrstu umferð. Liturinn sem ég valdi ber nafnið Sweet Tooth og er pastel bleikur. Yfirleitt er raunin sú með ljóslituð naglalökk að það þarf nokkrar umferðir ef liturinn á að vera áberandi. Það kom mér mjög á óvart að þess var ekki þörf, og í þokkabót þornaði lakkið hratt og örugglega.
Sum naglalökk eiga það til að erta mig, til dæmis ef ég naglalakka mig og fer svo eitthvað að vesenast í augunum mínum en nýju lökk frá Clinique eiga ekki að gera það.
Þar sem mér finnst ekkert skemmtilegra en að gera tilraunir á sjálfri mér get ég staðfest að ég hef ekki fundið fyrir neinum óþægindum (nema þegar ég potaði í augað á mér, en það var ekki naglalakkinu að kenna, ég er bara klaufi).
Lökkin koma í sautján súpersætum litum en fimm þeirra eru einungis í boði út sumarið.
Ég mæli því með að þær sem eru með viðkæma húð og neglur fái sér þessi ofnæmisprófuðu naglalökk og aðrar sem vilja halda uppi sumarstuðinu, a.m.k. þangað til að sólin lætur sjá sig.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.