Góður maskari gerir svo mikið fyrir heildarútlitið enda eru til ótal útgáfur frá öllum merkjunum með mismunandi áherslum og burstum og útkomu.
Flest viljum við þykkja og lengja, jafnvel lyfta aðeins upp. Tæknin er mögnuð og það er mest allt hægt í dag án þess að þurfa mikið af hjálpartólum með.
Ég er núna að prufukeyra Benefit They’re Real! maskarann og segi ekki annað en Vááá! Þessi gerir held ég bara allt sem stendur utan á pakkanum.
Ég er oft efins þegar það er verið að lofa miklu en ánægð þegar það reynist rétt. Það gleður mig að þessi maskari lyftir augnhárunum fallega, þá er brettari óþarfi. Einnig lengir hann augnhárin mjög mikið og greiðir vel úr þeim. Gúmmí burstinn er með sérstakri hönnun sem gerir það einfaldara að þekja vel hárin en samt halda þeim aðskildum.
Ég á það til að verða ekki almennilega hrifin af nýjum maskara fyrr en eftir uþb viku notkun, þá er ég að læra á nýjan bursta og að komast upp á lagið með hversu mikið kemur upp á hann. Ég mæli með að þið gefið nýjum maskara/bursta allavega viku ef ekki tvær til að vera viss hvort hann sé að virka fyrir ykkur.
Leiðbeiningarnar utan á pakkningunni fyrir þennan maskara eru nákvæmlega þær sömu og ég kenni alltaf. Með burstann láréttan vel upp við augnhárarót jugga smá til beggja hliða til að ná vel á milli háranna og byggja upp þykktina. Fínt er að draga burstann aðeins út lengdina á hárinum með sömu hreyfingu. Síðan snúa burstanum lóðrétt og fara frá rót til enda með litla hálfkúlu endanum og ná að auka lengdina og aðskilja vel hárin.
Endingin á They’re Real! er góð og liturinn helst eins og við ásetningu. Mér fannst augnhárin mín ennþá vera mjúk, sem er mjög góður kostur. Svo er einfalt og þægilegt að þvo hann af.
Frábær maskari sem fæst um borð í flugvélum Icelandair og víða erlendis.
_________________________________________________________
Katla lærði tísku og ljósmyndaförðun hjá Línu Rut haustið 1994. Hún hefur mikinn áhuga á öllu sem tengist förðun, húð, tísku,útliti og hönnun. Katla hefur einnig sótt ljósmyndanámskeið, lært fatahönnun og saum og lokið einkaþjálfaranámi.
.