Sumar eitt vann ég í snyrtivörudeild. Á milli þess sem ég afgreiddi viðskiptavini og reyndi mitt besta að spreyja ekki beint í augun á þeim (slysin gerast) þá dundaði ég mér við að lykta af hinum og þessum ilmvötnum sem verslunin hafði upp á að bjóða.
Lyktarskynið er eitt áhugaverðasta verkfæri sem líkaminn okkar býr yfir. Lykt er ávallt persónuleg upplifun og þess vegna eru ilmvötn svo skemmtileg -hvert og eitt okkar upplifir lykt á sinn hátt.
Ég var svo lánsöm pjattrófa að fá að prufa nýjan ilm sem heitir See frá hinu margrómaða tískuhúsi Chloé. Ilmirnir frá Chloé hafa verið afar vinsælir og er See enn önnur skrautfjöðurinn í hattinn hjá þessu vinsæla merki.
See inniheldur m.a. vanillu, epli sandalvið og jasmínu. Upptalningar af þessu tagi hafa þó aldrei sagt mér mikið um lyktir. Líklegasta ástæðan er sú að samsetningar af ilmefnum blandast mismunandi saman svo þó að tvö ilmvötn innihaldi bæði vanillu þá geta þau verið gjörólík.
Mér finnst skemmtileg að gefa lyktum persónueinkenni og kringumstæður og þannig lýsa betur þeirri upplifun sem verður þegar ilmurinn kæmst í tæri við þefskynið. Ég er vonandi ekki ein um þessa hugmyndafræði um ilmi.
Það fyrsta sem ég hugsa um þegar set á mig ilminn er að hann er afskaplega vinalegur; góð og kær vinkona gæti borið þennan ilm. Hann er mjúkur án þess að vera væminn og ferskur. Sól, sæla og áhyggjuleysi sem fylgir fallegum sumardögum koma upp í hugann og ég byrja hlakka til næstu mánaða.
Hann hentar vel til að vera með yfir daginn og í raun á kvöldin líka, þó svo að hann sé léttur og blómlegur. Íslensk sumur eru hvort eð er svo björt, hann smellpassar við nætusólina.
See-ilmurinn fær mig til að hugsa um sumardaga á fallegu reiðhjóli með blóm í körfu og freknur á nebba. Það er góð tilfinning og vonandi styttist í að vindhviður og norðanátt fari í sumarfrí. Ég veit allavega hvernig ég mun ilma yfir sumarmánuðina.
Þá er það bara að vona að sólarblíðan láti sjá sig áfram. Sumarið er tíminn!
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.