Þegar ég sé eitthvað sem mér þykir fallegt reyni ég eftir bestu getu að komast að því hvaðan hlutirnir eru, hvar þeir eru keyptir, frá hverjum þeir eru og hvaðan þeir koma.
Um daginn var ég í afmæli þar sem ég sá unga konu með dásamlega fallegan varalit. Ég gat bara ekki setið á mér og varð ég að byrja á því að segja henni hversu yndislega fallegur varaliturinn hennar væri og svo kom spurningaflóðið hvaða varalitur þetta væri, frá hverjum og hvar væri hægt að kaupa hann.
Það leið ekki langur tími þar ég var búin að fá allar upplýsingarnar, Rouge in Love 340B nýi varaliturinn frá Lancome, fæst í öllum helstu snyrtivöruverslunum á Íslandi.
Ég var dregin inn á bað og setti á mig litinn, ekki leið á löngu þar til baðherbergið var orðið fullt af stelpum þar sem við ræddum um snyrtivörur frá öllum sjónarhornum.
Þegar ég fór svo út af baðherberginu liðu ekki meira en tíu mínútur þegar komið var til mín og sagt “Ofsalega ertu með fallegan varalit”
Nú var ég sannfærð, ég var á leiðinni eftir helgi og kaupa þennan lit!
Stuttu eftir að ég fjárfesti í litnum fór ég í apótek, að sjálfsögðu var ég með hann á vörunum og heldur þú ekki að afgreiðslukonan hafi sagt við mig “Flottur varalitur!”…
Já svei mér þá ef þetta er ekki bara með þeim flottustu varalitum sem hafa verið framleiddir!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.