Þegar ég var yngri hugsaði ég ekkert um húðina mína. Maður skellti bara á sig meiki og faldi hana ef maður átti slæman dag.
Með auknum þroska fór ég að kunna betur að meta mig grímulausa og þó ég sé alveg ágætlega heppin með húðina í andlitinu þá er ekki hlaupið að því að finna rakakrem sem hentar henni vel.
Ég er nefnilega með viðkvæma og blandaða húð sem lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Ef kremið er of feitt verð ég glansandi eins og nýbónaður bíll og fæ stundum bólur sem er síður en svo frábært eftir tuttugu og fimm ára aldurinn.
Svo er það hitt að ef kremið er ekki nógu feitt þá verð ég skraufþurr í framan sem er auðvitað slæmt, ekki síst vegna þess að ég er mjög glaðvær að eðlisfari og vil ekki vera eins og djókerinn Heath Ledger í Batman þegar ég brosi hringinn.
_______________________________________________________
Nýlega var mér gefið krem frá L’Occitane sem er hannað fyrir konur sem hafa samskonar húð og ég. Það er að segja viðkvæma og erfiða húð.
Kremið heitir Shea Face Soothing Fluid og kemur í léttri flösku með pumpu og þægilegu loki. Þetta krem er fyrst og fremst mjög þægilegt á húðinni sem er mjög stórt atriði fyrir mér. Hún verður líka alveg silkimjúk og það dregur úr roða í henni sem er mikilvægt í kuldanum.
Það er sheasmjör í kreminu en shea er alveg frábært hráefni sem er handunnið úr sérstökum shea baunum af konum í Burkina Faso fyrir L’Occitane. Sheasmjör hefur reynst alveg meiriháttar vel á þurra húð og L’Occitane hefur gefið út nokkuð margar vörur með þessu innihaldsefni.
Shea Face Soothing Fluid er líka 100% laust við rotvarnarefni en til að passa að kremið haldi gæðunum og ferskleika er flaskan hönnuð á sérstakan hátt sem varnar því að súrefni komist að.
Eini ókosturinn sem ég sé við þetta frábæra rakakrem er frekar sterk lykt, svona gamaldags kremlykt sem minnir mig á ömmu mína svo þetta er í raun enginn sérstakur ókostur af því amma er frábær!
Ég mæli hiklaust með þessu rakakremi og gef því fjórar af fimm stjörnum.
[usr 4]Þórunn Antonía Magnúsdóttir, söng og leikkona, er flestum landsmönnum kunn. Hún hefur áhuga á ótal mörgu, en þó aðallega tónlist, móðurhlutverkinu, kvenhlutverkinu, ástinni, listinni og lífinu. Hún er í farsælli sambúð og á eina dóttur.