Það er ekki daglega sem ég kemst í ilmvatn sem lætur mig næstum taka stuðmannahopp af gleði.
Í raun er það ekki einu sinni mánaðarlega. Ég er agalega ‘pikkí’ á ilmi og þegar ég finn ilm sem mér líkar þá er hann ekki notaður sparlega.
Nei ég er alveg týpan sem kem með ský í kringum mig á fundinn en það á að vera í lagi því lyktin er garanterað góð. Maður er ekkert að úða á sig rugli.
Þessi ilmur hefur fengið endalaus hrós frá allskonar fólki sem óvart finnur lyktina af mér. Bæði börn og svo einhverjar tilfallandi manneskjur sem hafa þetta á orði.
Síðast þegar það gerðist þá bar ég ilminn Flora frá Gucci en hann sló svo í gegn að meira að segja afgreiðslukonan í Björnsbakaríi vildi vita hvaða ilm ég væri með. Og nú er það Pleats Please.
Pleats Please er frá Issey Miyake en tískuhúsið hefur löngum verið mjög framarlega í að hanna góða ilmi. Pleats Please er jafnframt fatalína frá tískuhúsinu, sportleg og töff.
Glösin frá Issey Miyake eru líka alltaf eitthvað fyrir augað, – einföld en mjög fáguð í senn. Glasið um Pleats Please er þannig, skemmtilega ‘optical’ og mjög svalt. Vönduð hönnun.
Fatalínan frá Pleats Please kom fyrst á markað árið 1993 en ilmurinn kom haustið 2012.
Í markaðssetningu er talað um „ilminn sem hreyfir við þér“ en þannig er höfðað til þess að þetta er sportlína sem fylgir hreyfingum líkamans.

Pleats Please er bjartur og glaðlegur ilmur, sætur en ekki of sætur, blómkenndur, ávaxtakenndur en með viðartóni í botninn sem gerir hann jafnan og góðan.
Ilmurinn kemur í 30, 50 og 100 ml Eau de Toilette. Endilega kannaðu Pleats Please næst þegar þú kemur í verslun sem selur ilmi. Ég elska þennan!

Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.