Undanfarið hefur BB-krem-æðið náð hámarki og hafa flestir snyrtivöruframleiðendur sent frá sér eitt slíkt krem inn á markaðinn…
BB-kremin eða ‘blemish balm’ kremin eru léttari en venjuleg meik, þau innihalda sólarvörn og veita húðinni raka yfir daginn. Með BB-kremi leyfir þú húðinni að njóta sín og hentar það því ungri og góðri húð einstaklega vel. Það er ekki skrítið að þetta BB-fyrirbæri sé að ná vinsældum því þetta er greinilega það sem konur vilja, að hugsa vel um húðina um leið og við fegrum hana!
Í vikunni prófaði ég BB-krem frá L’Oréal sem heitir Nude Magique. Við fyrstu kynni setti ég smá klessu á handabakið og varð frekar hissa verð ég að viðurkenna. Kremið var hvítt á lit og hafði kornótta áferð?
En þegar ég nuddaði því á húðina breyttist það í mjúkan og léttan farða og hafði fallegan ljósan lit. Ástæðan fyrir skrítna litnum og áferðinni er að í túpunni er krem sem inniheldur örsmá litahylki. Þessi hylki springa svo á húðinni og aðlagast þínum húðlit. Ég tek það fram að ég er mjög hrifin af þessari nýju tækni því áferðin á farðanum er einstaklega falleg og liturinn góður (BB-kremið kemur í nokkrum litum, minn litur er Light).
Svo prófaði ég einnig BB-púður frá L’Oréal. Púðrið nota ég til að matta húðina á enninu og kinnunum þegar ég er farin að glansa (sem gerist reyndar mjög seint þegar ég nota BB-kremið). Púðrið er fast og með því fylgir svampur og spegill. Fínasta púður!
Ég held að þetta sé það sem koma skal!
Guðný Hrönn Antonsdóttir útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2011 með B.A í Myndlist. Árið 2012 kláraði hún svo Tísku- og auglýsingaljósmyndun í Fashion Academy Reykjavík. Hún er fædd í október 1988 og hefur ótæmandi áhuga á tísku, förðun, myndlist og shitzu hundum.