Það er ekki langt síðan að ég uppgötvaði hvað mér finnst gaman að naglalakka mig.
Litir hafa alltaf heillað mig en ég hef frekar skoðað naglalökk en keypt þau í snyrtivörubúðum þar sem ég var einhverra hluta vegna föst með þá skoðun að stuttar neglur væru ekki flottar þegar þær bera naglalakk, en þar sem ég spilaði á píanó í mörg ár og vinn við tölvur í dag hefur ekki gengið upp fyrir mig að venjast því að vera með langar skvísuneglur.
Í dag er aftur á móti í tísku að vera með naglalakk og er ég komin yfir þá minnimáttarkennd að þora ekki að vera með naglalakk með stuttar neglur og er ég algjörlega að flippa út í að naglalakka mig með allskonar litum.
Nú á ég blátt, bleik, rautt, rauðbleik, grænt, blágrænt, gyllt, silfrað og glimmer naglalökk og er ég alltaf að ná betri tökum á tækninni með því að æfa mig og er ég meira segja farin að naglalakka táslurnar.
Það var til dæmis stóruppgötvun þegar ég byrjaði að naglalakka litla putta á vinstri hendi og svo kolla af kolli en fyrst byrjaði ég alltaf að naglalakka þumalfingurinn sem gerði það að verkum að ég klessti alltaf puttunum saman en litla putta aðferðin gengur miklu betur.
Einnig urðu neglurnar mínar stundum gular en um daginn lærði ég að dökkir litir geta gert nöglunum þetta og þá er gott að setja glært undir. Í gær fjárfesti ég svo í spreyi sem flýtir fyrir þurrkun og fyrir stuttu keypti ég penna sem ég nota til að hreinsa lakkið ef ég naglalakka út fyrir.
Já! Það er sko til heilmikið af dóti sem fylgir naglalakkaleiknum og ábyggilega margt sem ég get lært meira.
Í augnablikinu er ég hrifnust af Lancome naglalökkunum, þau þekja einstaklega vel og þarf yfirleitt einungis eina umferð af þeim, svo er nýja línan frá Lancome líka svo einsaklega falleg – OPI er einnig gott merki en þar þarf ég yfirleitt að gera tvær umferðir.
Margir gagnrýna stelpur fyrir það að vera hégómafullar að vera stússast í þessum snyrtivörupælingum en eftir að ég kynntist þessum heimi hef ég komist að því að mér þykir ferlega skemmtilegt að pæla í snyrtivörum, bera þær saman, sannreyna hvort þær virki og þegar ég eignast snyrtivörur sem eru allskonar á litinn þá verð ég yfirleitt spennt að prófa.
Kannski er þetta hégómi, ég er ekki á þeirri skoðun, kannski af því að mér þykir hreinlega bara gaman að dekra við sjálfa mig á kvöldin eða í frítíma mínum, því þá upplifi ég stund þar sem ég fæ að hugsa um sjálfa mig alveg í friði og það nærir sálina mína smá.
Hégómi eða ekki hégómi… skiptir engu máli, mér líður vel á meðan og þess vegna nýt ég þess bara. Má það ekki annars?
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.